Andvari - 01.01.2000, Blaðsíða 164
162
ÞÓRIR ÓSKARSSON
ANDVARI
samtímamanna Matthíasar, þeirra á meðal Gísla Brynjúlfssonar og Bene-
dikts Gröndals.15
Matthías var reyndar einn fárra íslenskra höfunda 19. aldar sem tengdi líf
sitt og skáldskap rómantík. Ungdómsárum sínum lýsti hann sem «hinu
rómantískasta tímabili» ævi sinnar, en árið 1871 er hins vegar svo komið að
hann segist hvorki vilja né kunna lengur «að rómanticera yfir þetta land»,
þótt hann gerði það að vísu á sínum góðu stundum.16 Viðhorf hans mótuð-
ust þannig af gagnrýni og efa. Matthías er sömuleiðis einn fárra Islendinga
sem hafa bendlað Jónas Hallgrímsson við evrópska (þýska) rómantík og
náttúruheimspeki hennar. í fyrirlestri frá 1905 sagði hann t. d.: «líklega hef-
ur honum bezt geðjazt að heimsskoðun Schel[l]ings og annarra róman-
tískra heimspekinga. En út í þá sálma er ekki vert að fara lengra. Guðs-
trúin hefur eflaust enzt honum hans stuttu leið.»17
í bók sinni tekur Svava Jakobsdóttir upp þennan þráð og gerir að megin-
þætti í greiningu sinni á skáldskap Jónasar. í umfjöllun sinni um «Ferða-
lok» segir hún t. d.:
. . . Ferðalok byggist á hugmyndafræði sem felur í sér einhyggju og trú á möguleikum
skáldlegs ímyndunarafls til að sætta andstæður í veröldinni.
Slík hugmyndafræði beinir athyglinni að fagurfræði Schellings og bókmenntakenn-
ingum rómantíska skeiðsins. (69)
í þessari greiningu sinni ræðir Svava talsvert um hugtak Schellings «hug-
sæisraunsæi» (ideal realismus), sem ætlað var að skýra «samruna eða víxl-
verkun andstæðnanna raunsæis og ídealisma (hugsjónar)» (102), og telur að
í því sé fólginn lykillinn að ritunaraðferð Jónasar. Segja má að Svava gangi
hér feti lengra en áður hefur verið gert í að orða Jónas við hinn heimspeki-
lega skóla þýskrar rómantíkur, og reyndar er greining hennar án efa ein-
hver ýtarlegasta lýsing á hugmyndum þess skóla sem til er á íslensku. Ólíkt
því sem Matthías Jochumsson virðist álíta telur hún að vel megi samræma
heimspeki Schellings kristinni guðstrú Jónasar. I því samhengi vísar hún
m. a. til þeirrar skoðunar Schellings «að sama hugmyndafræði búi að baki
kristni og náttúruheimspeki og felist hún í því «að sjá hið óendanlega í hinu
endanlega»». Rómantík 19. aldar sé með öðrum orðum nátengd rómantík
miðalda og «trúardulúð miðaldakristni» (125).
Þessi skilningur Svövu á rómantíkinni leiðir hana á vit norrænna bók-
mennta, texta á borð við Völuspá, Hávamál, Sólarljóð og íslensku hómilíu-
bókina, sem hún telur að Jónas noti í «Ferðalokum» við að skapa sína
einkagoðsögn þar sem bæði persónusaga skáldsins og saga þjóðarinnar
kristallist. «Ferðalok» séu að hluta til «menningarpólitískt kvæði sem boðar
lausn landsins úr álögum og nýja reisn í samtímanum með endurheimt for-
tíðar» (133). Meginviðhorf Svövu eru því að nokkru leyti þau sömu og