Andvari - 01.01.2005, Síða 100
98
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
ANDVARI
það gerst þannig að hliðstætt sé notkun blaðamanns á frægum orðum úr
skáldverki sem hann nýtir sér í fréttaskýringu - þó að orðræða og táknfræði
þessara tvegga forma endurritunar sé gerólík. Umtalsverð áhrif sitra úr flokki
2 í flokk 3, því að ítarleg umfjöllun um höfund og verk er gjarnan endurtekin
í afmarkaðra formi og birtist í smáskömmtum í t.d. skólakennslu og kennslu-
efni, ýmisskonar handbókum, alfræðiritum og öðru formi endurritunar, til-
vitnana og tilvísana (sem hefur farið mjög fjölgandi eftir að intemetið kom
til sögunnar).
A hinn bóginn er erfitt að ímynda sér að flokkur 2 sé mjög virkur, þ.e.
að fram fari samfelld ígrunduð umfjöllun um erlendan höfund, ef ekki eru
til þýðingar á mikilvægum verkum eftir hann. Slíkt gerist þá einna helst í
tungumáladeildum háskóla eða ef höfundurinn er nógu alþjóðlega kunnur.
Þannig vita margir Islendingar ákveðin grunnatriði um Dante, þótt ekki hafi
hann verið þýddur nema að takmörkuðu leyti. Þá er flokkur 3 reyndar oft inn-
byggður þáttur í flokki 2, því að í ítarlegri umfjöllun um ákveðna höfunda er
oft krökkt vísana til annarra höfunda, án þess að því fylgi nánari útskýringar,
þ.e.a.s. reiknað er með þekkingu lesendans á því sem vísað er til. Oft er
þannig skotið inn vísunum til þekktra höfunda í umfjöllun um þá sem síður
eru þekktir, ýmist til þess að upphefja þá með samanburði eða halda þeim
tryggilega fyrir neðan hinn viðurkenndari höfund (sem telst þá gera eitthvað
betur, vera meiri stílisti, osfrv.). Þess ber einnig að geta að textatengsl í flokki
4 (og ummæli í 3) geta vísað beint í hið erlenda verk, þó að oft megi líka
rekja það til þýðinga sem gerðar hafa verið í viðkomandi tungumáli. Ef ein-
hver bregður fyrir sig orðunum „to be or not be“ eða „að vera eða ekki vera“,
má telja víst að vísað sé til Hamlets og ef bætt er við orðinu „efi“ í þessu
samhengi, eins og ég heyrði nýlega í íslenskum fjölmiðli, þá er næstum áreið-
anlega stuðst við íslenska þýðingu á verkinu, því Helgi Hálfdanarson þýðir
„that is the question" með „þama er efinn“.4
Nú blasir það við að flokkar 2, 3 og 4 einkenna ekki aðeins erlendar bók-
menntir, heldur alla umfjöllun eða „endurritun“ (eins og það er stundum
kallað) bókmennta í hverju tilteknu samfélagi. Þegar um er að ræða frum-
samdar bókmenntir fá þessir þættir ýmsan staðbundinn stuðning, ef svo má
að orði kveða, en í tilviki erlendra bókmennta hafa þeir hins vegar oft visst
þýðingarhlutverk, með þeim er vottað um nærveru erlendrar menningar sem
verður þó jafnframt innlend. Þetta má hafa í huga þegar rætt er um Joyce
á Islandi, því að síðbúnar þýðingar á verkum hans segja ekki allt um stöðu
hans í íslenskum menningarheimi. í sumum tilvikum hefur höfundur verið
„þýddur“ á vissan hátt inn í menninguna áður en verk hans eru þýdd á hlut-
aðeigandi tungumál.
Tekið skal skýrt fram að sú umræða sem hér fer á eftir byggist ekki á rýni
í einstakar þýðingar á verkum Joyce eða mati á þeim með hliðsjón af frum-