Andvari - 01.01.2005, Page 103
andvari
RITHÖFUNDAR í ÚTLÖNDUM
101
Árið 1935 birtir Halldór Laxness grein íRauðum pennum sem hann nefnir
„Borgaralegar nútímabókmenntir. Nokkrir aðaldrættir“ og fjallar þar um
borgaralega höfunda sem stunda, eins og hann segir,
endalaust fílósóferí á parkettgólfi innan rauðaviðarveggja, glitrandi orðavaðall og snilld-
arlegir sleggjudómar með hliðsjón af Proust, Joyce, Lawrence, Dostojevski, drauma-
bók Freuds, Þúsund og einni nótt á arabisku, kóraninum; tígrisdýrsfeldur á gólfinu;
dýrmætur Micoque á veggnum. Maður fær þá hugmynd, að höfundurinn hafi fyrst og
fremst ætlazt til að vera álitinn „heimsborgari" og fínn maður [,..].9
Hér er Joyce semsé ekki flokkaður sem sérlegur súrrealisti, eins og Laxness
vildi seinna gera, heldur er hann í fylkingarbrjósti borgaralegra nútímahrær-
inga í bókmenntum sem Laxness taldi ekki gagnast þeim skáldskap sem raun-
verulega tækist á við samfélagið. Laxness virðist gera ráð fyrir að íslenskir
lesendur átti sig á hvaða menn þetta séu, Proust og Joyce, já og Lawrence
(líklega D.H. fremur en T.E.). Þarf kannski ekki einu sinni að kynna þá?
Þessi spuming vaknar í tengslum við fyrsta verk Joyce sem þýtt er á
íslensku, en það er sagan „A Little Cloud“ úr sagnasafninu Dubliners, sem
Ingólfur Pálmason þýðir og birtir í Tímariti Máls og menningar árið 1946
undir titlinum „Skýjaborg“. Það er býsna frjálsleg þýðing á titlinum sem
breytist úr skýhnoðra í skýjaborg, þótt sá titill sé kannski ekki óviðeigandi í
ljósi smásögunnar. Sögunni fylgir kynning á Joyce, fyrsta „formlega" kynn-
ingin sem ég veit til að birst hafi á íslandi. Hún er svohljóðandi (og ætla
verður að hún sé eftir þýðandann þótt ekki sé það öruggt):
James Joyce, höfundur þeirrar smásögu, sem hér er þýdd, var einn frægasti rithöfundur
þessarar aldar. Hann var fri, fæddur í Dublin árið 1882, og þar fékk hann menntun sína.
Síðan dvaldist hann mest utan föðurlands síns, í París, Róm, Trieste, Zúrich, og í þeim
borgum skrifaði hann frægustu skáldsögu sína Ulysses (Ódysseif) á árunum 1914-1921.
Sú bók, sem er nær 1000 síður að lengd, lýsir einum degi í lífi nokkurra Dublinbúa. Hún
varð mjög umdeild, þegar hún kom út, prentuð í París, og var lengi bönnuð í Bretlandi
og Bandaríkjunum, og heil upplög voru brennd. - Aðrar helztu bækur þessa höfundar
eru: Dubliners 1914, smásagnasafn, sem sagan hér að framan er þýdd úr; A Portrait of
the Artist as a Young Man 1916 og Finnegan’s Wake, verk það, sem hann vann að frá
því Ulysses kom út og því nær til dauða síns, 1941.10
Þótt Joyce sé sagður hafa verið „einn frægasti rithöfundur þessarar aldar“
er samt greinilega talin þörf á grundvallarkynningu á honum hér á landi. I
umsögninni birtist því viss togstreita frægðar og skjalfestrar kynningar. Ann-
arsvegar er höfundurinn alþjóðlega „frægur“ og ætla má að margir íslend-
ingar viti af honum, hinsvegar er hann að stíga sín fyrstu spor sem höfundur
á íslensku. Segja má að hér sé um að ræða mismunandi tegundir „inngöngu“
1 bókmenntakerfið.