Menntamál - 01.04.1959, Qupperneq 14
8
MENNTAMÁL
fræðslulögunum, að val og meðferð námsefnisins sé á
þann veg, að auðvelt sé fyrir nemendur að flytjast á
milli hliðstæðra skóla. Aðstaða unglinganna í hinum
ýmsu skólahverfum sé þannig sem jöfnust. Eðlilega er
vandinn mestur, þegar gerður er samanburður á skólum
þéttbýlisins annars vegar og skólum dreifbýlisins hins
vegar, þar sem fræðslulögin eru raunverulega ekki enn
komin til framkvæmda í sveitum landsins. Sem dæmi um
vandamál á þessu sviði get ég nefnt, að árlega flytjast
allmargir unglingar úr dreifbýlinu til Reykjavíkur. Flest-
ir hafa þessir unglingar lokið fullnaðarprófi á því ári,
sem þeir verða 14 ára, en oft hafa þeir ekki numið sama
námsefni og þar er kennt í 1. bekk gagnfræðaskólastigs
skólanna. Þeir hafa t. d. mjög sjaldan lært nokkuð í
dönsku. Þeir hafa aldur til að setjast í 2. bekk, en aðeins
þeir allra duglegustu freista þess. Hinir fara í 1. bekk og
ljúka þá unglingaprófi ári á eftir jafnöldrum sínum.
Strangt tekið hafa þessir unglingar lokið sínu skyldunámi
með fullnaðarprófinu, en ef þeir hyggja á framhaldsnám,
komast þeir ekki hjá því að afla sér meiri þekkingar m. a.
í erlendum málum. Æskilegt væri, að fleiri skólar dreif-
býlisins tækju upp kennslu í dönsku síðasta eða tvö síð-
ustu skólaárin. Mjög væri það athugandi, hvort ekki væri
æskilegt að hefja nám í erlendum málum, dönsku og
ensku, einu ári fyrr en nú er gert, og yrði þá nauðsynleg
breyting gerð á námsáætlun í móðurmálinu með tilliti til
þess.
Vandamál þessu lík eru einnig til staðar innan gagn-
fræðaskólanna í Reykjavík. Þótt hér hafi verið stuðzt við
sérstaka námsáætlun, sem í meginatriðum er byggð á
drögum að námsskrá frá 1948, eru mikil vandkvæði á
því, eða öllu heldur ókleift, að ætla öllum unglingum
hvers árgangs um sig sama námsefni. Skipta má nem-
endum í 3 meginhópa eftir getu í námi — úrvals-, mið-
lungs- og getulitla nemendur. I þeim síðasttalda hópi eru