Kirkjuritið - 01.04.1948, Blaðsíða 29
SÉRA ÁRNI ÞÓRARINSSON
123
fyrir gýg. Mun það líka almennt viðurkennt, að presta-
stéttin hafi jafnan reynzt þjóðnýt, þó að e. t. v. sé hægt
að benda á undantekningar.
Séra Árni taldist ekki til þessara undantekninga. Þó var
honum sumt til foráttu fundið í heitri baráttu um dægur-
mál. En það var ekki af því að hann væri neinn veifiskati,
heldur þvert á móti. Gat þá andstæðingum hans sárnað
harðfylgi hans og dugnaður um allt það, er honum fannst
máli skipta. Hitt duldist engum, enda almennt viðurkennt,
að sem kennimaður stæði hann í fremstu röð þessa lands.
Það má því hiklaust fullyrða, að séra Árni hafi sem
sóknarprestur fundið það verksvið, er honum var mest að
skapi og samboðið hæfileikum hans. Þar buðust honum
fjölbreytt viðfangsefni, sem gerðu dag hvern að leikandi
lífi, og varð því aldrei kalt né kyrrt í kringum hann.
Alls staðar og ávallt var hann aufúsugestur, og þótti það
jafnan mikill viðburður, er séra Árna bar að garði, en það
er oft í frásögur fært. Var hann þá allt í senn, skemmtandi,
fræðandi og áminnandi, á þann hátt, sem hæfileikamann-
inum er einum lagið. Þegar hann skemmti, átti hann þá
kímni, sem kom öllum í gott skap. Þegar hann fræddi,
birtist lærdómur hans í sagnfræði og ættvísi, kryddaður
miklu mannviti og mannþekkingu. En þegar hann áminnti,
var það alvörutrúmaðurinn, sem mælti af tilfinningarhita
og sannfæringarþrótti.
Séra Árni gerði sér mikið far um að kynnast sóknar-
börnum sínum. Var hann í margmenni hrókur alls fagn-
aðar, og þó öllu vel í hóf stillt. Helzt vildi hann vera í næði
og tala við menn undir fjögur augu. Átti hann óvenju
mikla samtalshæfileika, og var þá líka málkynngi hans
og málfegurð viðbrugðið. Hvort sem var í viðræðum eða
prédikunarstól, orðaði hann allt svo vel, að ekki var unnt
að misskilja hann. Sálgæzluhæfileika hafði hann þá einnig
mikla, og með barnslegri einlægni sinni og ástúð komst
hann nær öðrum en mörgum er gefið.
Hann var boðinn og búinn til hjálpar þeim, sem bágt