Kirkjuritið - 01.04.1948, Blaðsíða 50
144
KIRKJURITIÐ
Og þetta má vissulega einnig þakka íslenzkri alþýðu,
góðri og gegnri, heilbrigðri, öfgalausri, sem staðið hefir
með prestunum vörð um trú feðra sinna og mæðra öld af
öld.
Það hefir verið sagt um íslenzku þjóðina, að hún hafi
aldrei orðið fyrir neinni trúarvakningu. Slíkt er fjarri
sanni. Að vísu hefir þjóðin ekki haft kristni sína að skraut-
brennu, en hún hefir verið arineldur heimila hennar og yljað
henni og lýst í ótal nauðum, í lífi og dauða. Og við þann
eld hafa kveikt á kertum sínum menn eins og höfundur
Sólarljóða og Lilju, Hallgrímur Pétursson og Matthias
Jochumsson.
Stöndum öll saman trúlega um þennan dýra arf, vígðan
og helgaðan af reynslu kynslóðanna á undan okkur.
Enginn ágreiningur er svo mikill, að hann jafnist ekki,
er aðiljar bera í brjósti nógu hlýjan hug hver til annarra.
Þetta skildi hann flestum betur, þjónn Krists, er um
langan aldur hafði helgað kristninni alla krafta sína og
séð deilur rísa og hníga. Hann hafði numið það af meistara
sínum, hvað þurfti til að tryggja einingu kirkjunnar. Með
einu var allt fengið. Hann flutti stytztu og fegurstu pré-
dikunina, sem nokkur lærisveinn Jesú Krists hefir haldið
— sömu orðin aftur og aftur, lét bera sig að æfilokum á
safnaðarsamkomurnar til að segja þau,
Mig langar til að ljúka með þeim þessari grein:
„Börn mín. Elskið hvert annað.“
Ásmundur Guðmundsson.