Kirkjuritið - 01.04.1948, Blaðsíða 72
166
KIREJURITIÐ
sálargöfginni. Sé sá vegur genginn í fullkominni einlægni
hugans, verður hann án efa greiðasti vegurinn. — En
þér, sem ætlar að halda þann veg, vil ég í krafti kenningar
Jesú Krists segja þetta:
Flekklaust ytra líf getur því aðeins orðið þér leiðin til
Guðs ríkis, að það stuðli að því að auka samúð þína og
kærleiksþel. Góðverk þín mega ekki vera eins og gjafir,
sem séð er eftir. Krossfesting ástríðna þinna má ekki
vekja hjá þér dómgirni og siðferðishroka. Ef sú verður
raxmin á — ef sjálfsafneitun þín verður til þess að kæla
huga þinn í garð meðbræðra þinna, eru þær unnar fyrir
gýg. — Nei, verra en það, — raunverulega hafa þær þá
aukið á fátækt sálar þinnar.
Lífið sjálft hefir staðfest kenningu Jesú Krists um dyggð
og synd og sálarþroskun á eftirtektarverðan hátt. — Þú
skalt virða fyrir þér með gaumgæfni andlitin á öldruðu
fólki, sem þú mætir á lífsleiðinni. Ef þú ert mannþekkjari,
geturðu lesið sögu hvers einstaks manns í andliti hans.
Þær sögur, sem þú lest þar, verða harla ólíkar. Þú munt
sjá andlit með björtum og heiðríkum svip, þar sem góð-
vild og samúðarhugur skín úr hverjum drætti. Og þú
munt sjá andlit, bólstrað af skýjum öfundar og mann-
haturs. Og þú munt sjá andlit af allskonar milligerðum
milli þessara höfuðandstæðna. — Ef þú ferð að kynna þér
æviatriði þessa fólks, muntu komast að raun um það, að
björtu andlitin tilheyra stundum mönnum, sem hafa gerzt
sekir um ýmiskonar áberandi hrasanir. Hitt kemur líka
fyrir, að skuggalegu andlitin tilheyra mönnum, sem hafa
alla æfi þrætt götu almennra siðaboða, svo að ekki verður
að fundið. — Hefir þá lífið gert sig þarna sekt um ranga
skráningu? Nei, þér er óhætt að treysta því, að lífið hefir
bókað rétt. Hin óvænta útkoma stafar af því, að það hefir
ekki skráð sögu hinna ytri atburða. Það gerir lífið aldrei.
Það virðist líta eins á það og Jesús Kristur, að sú saga
skipti raunverulega ekki máli. Lífið skráir á andlit manns-
ins sögu, sem er þýðingarmeiri — sögu hins innra manns.