Kirkjuritið - 01.12.1951, Page 102
352
KIRKJURITIÐ
Fimm nýjar kirkjur í Kaupmannahöfn.
í Kaupmannahöfn er stöðugt unnið að undirbúningi nýrra
kirkjubygginga, og sem stendur eru þar fimm kirkjubyggingar
í undirbúningi og hefir þegar verið safnað miklu fé til þessara
bygginga.
1900 ár síðan Páll postuli kom til Evrópu.
Á þessu ári eru talin vera 1900 ár síðan Páll postuli kom til
Evrópu, til þess að boða kristindóminn. Margvísleg hátíðahöld
hafa farið fram í Grikklandi, í tilefni þessara hátíðahalda. —
Fjöldi pílagríma og gesta hafa heimsótt Grikkland og heim-
sótt þá staði, þar sem Páll starfaði.
„Cantate Domino"
heitir sálmasafn, sem gefið hefir verið út af hinu kristilega
alþjóðasambandi stúdenta í Genf, og hefir að geyma 120 sálma
frá ýmsum löndum. Kristilega stúdentahreyfingin í Finnlandi
gaf pappírinn í bókina, og einnig hlaut útgáfan fjárhagslegan
stuðning frá kristilegum félögum í Bandaríkjunum.
Billy Graham
heitir vakningaprédikari, sem mikla athygli hefir vakið í
Bandaríkjunum. Hafa samkomur hans verið svo vel sóttar, að
til slíks eru engin dæmi frá síðari árum um trúarlegar sam-
komur. Nýlega hélt hann samkomur í Hollywood og söng þar
1000 manna kór frá 82 kirkjum í borginni og nágrenninu.
Ó. J. Þ.