Eimreiðin - 01.04.1927, Qupperneq 19
eimreiðin ÞORGEIR LJÓSVETNINGAGOÐI 115
En hvað var það þá, sem reið baggamuninn og veitti
kristninni sigur?
Hinir kristnu sagnaritarar vilja auðvitað láta það heita svo,
að það hafi aðallega verið kraftur kristindómsins og vizka
hinna ráðandi manna þjóðfélagsins, sem beygðu sig fyrir þeim
krafti. Og því fá allir þeir menn, sem mest og bezt unnu að
kristnitökunni, mikið lof hjá þeim fyrir viturleik sinn og aðra
mannkosti, enda áttu það og að mörgu leyti skilið.
Því ber og sízt að neita, að áhrif kristniboðanna í lok tí-
undu aldarinnar hafi talsverð orðið, einkum Þangbrands, og
að ýmsir vitrir menn og meiriháttar hafi þá af sjálfvilja og
sannfæringu tekið kristni. Má þar til nefna þá Þorvald Spak-
böðvarsson, Njál, Oest spaka Oddleifsson og Síðu-Hall; þó
orðsending Olafs konungs Tryggvasonar hafi sjálfsagt þar um
nokkru ráðið í fyrstu, að Hallur tók Þangbrand að sér,
þegar allir aðrir héraðsmenn voru honum móthverfir og vildu
honum enga björg veita. En allir þessir menn voru að lundar-
fari svo gæfir og spakir, að næsta eðlilegt var að kenning
kristindómsins félli þeim vel í geð, og betur en kjarni Asa-
írúarinnar með allri sinni harðneskju, blótum og ribbaldaskap.
En slíkir geðspekimenn og vitringar sem þessir menn eru
iafnan fáir í hverju þjóðfélagi, svo að sigur kristninnar mundi
hafa átt langt í land, ef þess hefði átt að bíða, að allur þorri
manna færi að dæmum þeirra.
Það voru líka aðrir eiginleikar í lundarfari Islendinga, sem
meira réðu um sigur kristninnar, en geðspeki og vizka nokk-
urra meiriháttar manna. Það var miklu fremur valdafíkn, met-
orðagirnd og höfðingjahollusta forsprakkanna, fégirni þeirra
°9 frændafylgi, sem baggamuninn reið, þó ekki væri þetta alt
sameinað hjá þeim yfirleitt, heldur sitt hjá hverjum.
Hvern þátt valdafíkn hinna nýju uppvaxandi höfðingja, sem
hnekkja vildu hinu forna goðavaldi, hafi átt í sigri kristninnar,
hefur prófessor Björn M. Olsen rakið nægilega í riti sínu
»Um kristniíökuna árið 1000“, og skal því ekki hér frekar
út í það farið, heldur aðeins vísa til þess, sem þar segir. Þó
skal því við bætt, að í því riti er of mikil áherzla lögð á
betta atriði. Það átti sinn þátt í úrslitunum, en önnur atriði
réðu þó enn meira.