Eimreiðin - 01.07.1929, Blaðsíða 90
274
GRASAFERÐIR
EIMREIÐIN
ekki hæit við, að grösin færu úr pokanum, því þegar gengið
var á milli grasastaða, lagði grasamaður handlegginn að síð-
unni og lokaðist þá rifan að fullu.
Þegar allir voru búnir að ganga frá pokunum, dreifðu menn
sér um grasamóinn og fóru að tína. Þeir, sem voru vanir við
grasatínslu, voru hálfbognir og tíndu grösin ótt og títt með
hægri hendinni og voru jafnan berhentir — því ekki þótti
gerlegt að tína með vetlingum. En óvönum og unglingum
hætti við að vilja krjúpa á hnén, því bakraun er það mikil
að vera boginn heila nótt í grasamó.
Þegar nokkur grasaskreppa var komin í pokann, voru grösin
tekin úr og látin í hrúgu — grasatínu. Var svo varða hlaðin
hjá eða önnur kennimerki sett, svo hægt væri að finna tín-
urnar aftur.
En ef tínurnar voru auðfundnar vegna Iandslags, eða ann-
ara staðhátta, var ekki þörf að hlaða vörður hjá þeim. Var
þá settur einhver hlutur hjá tínunum, t. d. vetlingur, net, sjal-
klútur eða sokkabönd o. s. frv., svo að hver gæti helgað sér
sínar tínur.
En fyrir kom það, að sokkabönd meyjanna hurfu, og hafði
þá einhver aðdáandi þeirra úr karlmannaliðinu slegið eign
sinni á bandið, og geymdi það síðan sem menjagrip eða helgi'
dóm. Og var stúlkunum mikið stríð í slíkum ránsskap.
Ur pokunum var losað tvisvar til þrisvar yfir nóttina og
jafnvel oftar, ef grös voru nóg og lítið þurfti að ganga. Eins
og áður er sagt hafði hver grasamaður sínar tínur sér, svo
hver gæti vitað, hvað hann tíndi mikið yfir nóttina, því met-
ingur var oft mikill, hver væri mestur grasatekjumaður. Þótti
vel gert að tína fjórðung af vel þurrum og kvistuðum grösum
yfir nóttina. Var mikið undir veðrinu komið, hvernig grasaðist.
Bezt var að tína þegar kyrt var veður og döggvuð jörð eða
hlýinda salla-regn. Þá breiða grösin úr sér og verða lausari,
auk þess mýkri og fljótteknari, og grasafólkið varð síður sár-
hent. En það vildi oft verða, ef tínt var í þurviðri og kulda.
Engin föst regla var um það, hvenær hætt var á morgnana.
Fór það eftir veðri og ákafa fólksins. En vanalega mun samt
hafa verið hætt um dagmálaskeið. Grasaforinginn, ef hann
var nokkur, gaf merki til heimferðar að tjaldinu. Söfnuðu