Uppeldi og menntun - 01.01.2002, Page 186
KENNARAR OG KULNUN
lifðu skort á kennslugögnum og nefndu margir þann mikla tíma sem þeir telja að fari
í að útbúa þau og vildu gjarnan að aðgengi væri meira og betra. Einnig hér koma
áhrif foreldra sterklega fram með kröfur um betri námsárangur barna sinna og kem-
ur það heim og saman við aðrar niðurstöður um áhrif foreldra. Kennurum finnst
starfi sínu ekki sýnd nægileg virðing í þjóðfélaginu. Hefur þetta sjónarmið oftlega
komið fram í tengslum við umræður sem verða þegar kjaradeildur eiga sér stað og
fram kemur í rannsóknum að þetta er umtalsverð uppspretta kulnunar í starfi. Lík-
legt er að kennarar verði sjálfir fyrst og fremst að ganga fram í því að breyta þessari
ímynd með því að vera duglegri að láta koma fram það sem vel er gert. Þarna geta
líka skólastjórnendur og aðstandendur nemenda haft mikil og jákvæð áhrif.
Aga- og hegðunarvandamál ýta einnig undir kulnun og sýnir það að þessi sam-
skipti reyna á kennara. Niðurstöður gefa jafnframt til kynna nauðsyn þess að skýr
viðmið gildi í samskiptum og að til séu skilgreindar og færar leiðir til þess að taka á
málum sem upp kunna að koma. Ef leiðir eru skilgreindar og skýrar virðist sem kuln-
unar gæti í minna mæli hjá kennurum.
Auk þess kemur fram að heimavinna og vinna utan hefðbundins vinnutíma ásamt
því að þurfa að bregðast við óvæntum aðstæðum í kennslustund er kennurum einnig
umtalsverð uppspretta kulnunar í starfi. Nemendur eru frjóir og forvitnir og gerir
það að verkum að upp koma spurningar og umræður í kennslustund sem krefjast
þess að vikið sé af leið og gefa slíkar spurningar reyndar oft óvænt og ögrandi tæki-
færi. Einnig getur verið um aga- og hegðunarvandamál að ræða sem þarf að bregð-
ast við hér og nú. Þetta gerir miklar kröfur um aðlögunarhæfni, úrræði og hug-
myndaauðgi kennarans og getur valdið álagi þar sem þetta eru aðstæður sem bregð-
ast þarf við strax og kennarar standa jafnvel oftar frammi fyrir í daglegu starfi en
ýmsar aðrar starfsstéttir.
Aðrir þættir
Ljóst er að kennurum finnst álag í starfi sínu mikið, enda sýna niðurstöður að liðlega
90% kennara fannst álag mikið á þeirri önn sem næst á undan rannsókninni fór. Sér-
stakir álagstoppar koma fram þegar skil verða á skólastarfi, við upphaf og lok anna.
Þetta gæti gefið tilefni til þess að endurskoða skipulag, undirbúning, tímamörk og
tímasetningu sem verkefnum eru sett í þeim tilgangi að athuga hvort hægt er að gera
breytingar til þess að jafna álag betur. Verið getur að ágúst fremur en september væri
nefndur ef spurt væri nú vegna þess að skólar hefjast orðið fyrr.
Allstór hópur, eða tæplega 2/3 þeirra sem þátt tóku í þessari rannsókn, hefur hug-
leitt að hætta kennslu. Ætla má að það sé m.a. afleiðing af einhvers konar vanlíðan í
starfi og virðingarleysi annarra fyrir starfi kennara. Vinnuálag er meiri áhrifavaldur
í þessu ferli en launakjör, þ.e. hjá þeim kennurum sem vildu hætta kennslu vegna
vinnuálags virðist gæta meiri kulnunar, og er það í samræmi við niðurstöður er-
lendra rannsókna. Það er reyndar athyglisvert í ljósi staðreynda og umræðna um
launakjör kennara mörg undanfarin ár, en ætla mætti við fyrstu sýn að launakjör
væru meiri áhrifaþáttur. Það er alvarlegt mál ef umtalsverður fjöldi kennara hættir
kennslustörfum, því mikil þekking og reynsla sem skólarnir þurfa á að halda fer þá
164