Tímarit lögfræðinga - 01.03.1996, Blaðsíða 22
refsingar óháð refsi- eða brotategund. Þessara sjónarmiða, sem ekki eru á
tæmandi hátt talin í lögum, gætir að sjálfsögðu í mismiklum mæli frá einu máli
til annars og sum þeirra hafa áhrif á ákvörðun refsingar oftar en önnur.
Með nokkrum rétti má segja að margvíslegum sjónarmiðum sem áhrif kunna
að hafa á refsiákvörðun sé beint til dómarans hverju sinni. Það er síðan í hans
verkahring að taka afstöðu til þess að hvaða marki megi taka tillit til þeirra við
ákvörðun refsingar og hvert eigi að vera innbyrðis vægi einstakra sjónarmiða
sem áhrif hafa.
Eins og áður segir eru almenn refsiákvörðunarsjónarmið ekki tæmandi talin í
lögum. Nokkur sjónarmið eru tilgreind í 70. gr. almennra hegningarlaga. Máls-
bætur og þyngingarástæður í þessum skilningi geta og falist í öðrum laga-
ákvæðum eða verið ólögmæltar með öllu. Sum þeirra eru sakbomingi í hag,
önnur í óhag eins og gengur. Að því er varðar 70. greinina er vert að taka fram,
að ekki verður dregin ályktun um mikilvægi einstakra sjónarmiða sem þar eru
tilgreind út frá niðurröðun þeirra. Hins vegar er ljóst eins og þegar hefur verið
vikið að, að vægi einstakra sjónarmiða er ekki það sama þegar að refsiákvörðun
kemur. Þá skal hér bent á, að við ákvörðun refsingar er skylt að taka tillit til
þeirra sjónarmiða sem tilgreind eru í 1. mgr. 70. gr., að því leyti sem á þau
reynir. Þá skal það að jafnaði metið til þyngingar á refsingu ef um samverknað
tveggja eða fleiri manna er að ræða, sbr. 2. mgr. tilvitnaðs ákvæðis.
Um tilgreiningu einstakra refsiákvörðunarsjónarmiða læt ég nægja að vísa til
70. gr. hegningarlaga og umfjöllunar minnar hér síðar um ástæður skilorðs-
ákvörðunar, en til þeirra verður að jafnaði einnig horft við refsiákvörðun í þeim
skilningi sem hér hefur verið vikið að.
Að því er varðar val á milli refsitegunda skal aðeins getið þeirrar almennu
reglu, að einungis skal velja eina refsitegund í senn, hvort sem dæmt er um eitt
eða fleiri brot. Hér ber þó að nefna að í 49. gr almennra hegningarlaga er að
finna ákvæði sem heimilar dómara að dæma fésekt samhliða refsivist þegar svo
stendur á að ákærði hefur aflað sér eða öðrum fjárvinnings með broti eða það
hefur vakað fyrir honum. Þá er í annan stað heimilt samkvæmt 4. mgr. 77. gr.
laganna að dæma sektir samhliða refsivist ef í einu lagi er dæmt fyrir tvö eða
fleiri brot og annað eða sum varða refsivist en hin sektum. Þá sætir framan-
greind meginregla mikilvægri undantekningu þegar svokallaðir blandaðir
skilorðsdómar eru annars vegar, en að þeim verður senn vikið nánar.
IV.
A undanförnum árum hefur það færst mjög í vöxt, að dómstólar nýti sér
heimild í ákvæðum almennra hegningarlaga til að skilorðsbinda tildæmda
refsingu. Reyndar get ég ekki stutt þessa staðhæfingu mína með tölulegum
upplýsingum en ég hygg að þetta sé almennt álit manna. Ekki verða hér hafðar
uppi skoðanir urn það hvað hafi ráðið þessari þróun, en á það skal bent að hún
verður ekki rakin til breytinga á refsilöggjöf.
16