Tímarit lögfræðinga - 01.03.1996, Blaðsíða 70
frá aðalfundi 1992, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Fundarstjóri gerði grein
fyrir tillögu fráfarandi stjórnar um skipan aðal- og varastjórnar á næsta starfsári.
Aðrar tillögur komu ekki fram og voru eftirtaldir kjörnir í aðal- og varastjóm
með lófataki:
Aðalstjóm: Garðar Gíslason hæstaréttardómari, Helgi I. Jónsson héraðs-
dómari, Ólöf Pétursdóttir dómstjóri og Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari.
Varastjóm: Freyr Ófeigsson dómstjóri og Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari.
Þá var Eggert Óskarsson héraðsdómari kjörinn endurskoðandi félagsins.
Allan Vagn Magnússon þakkaði Ólafi Berki Þorvaldssyni vel unnin störf í
þágu félagsins og bauð Garðar Gíslason velkominn til stjórnarstarfa.
Að venjulegum aðalfundarstörfum loknum stjómaði Valtýr Sigurðsson héraðs-
dómari almennum umræðum um eftirtalin efni:
a) Hversu margir eiga héraðsdómstólamir að vera og hver eiga umdæmi þeirra
að vera? Kemur til greina að afnema skiptingu landsins í dómumdæmi,
þannig að dómstóllinn á lægra dómstigi verði aðeins einn en hafi fasta
starfsstaði á tilteknum stöðum á landinu?
b) Hversu margir eiga héraðsdómarar að vera? Ef landinu verður áfram skipt í
dómumdæmi, hversu margra dómara er þörf í hverju þeirra? Kemur þá til
greina að lögbinda aðeins heildartölu héraðsdómara og skipa dómara án
þess að binda þá við tiltekna dómstóla, þannig að fjöldi dómara á hverjum
stað geti ráðist af þörfum á hverjum tíma?
c) Viðbrögð dómara við gagnrýni á dómara og dómstóla.
Líflegar umræður urðu um framangreind álitaefni. Til máls tóku Allan Vagn
Magnússon, Ásgeir Pétur Ásgeirsson, Friðgeir Björnsson, Haraldur Henrysson,
Helgi I. Jónsson, Hervör Þorvaldsdóttir, Ólöf Pétursdóttir, Valtýr Sigurðsson og
Þorgeir Ingi Njálsson.
Að umræðum loknum tók formaður félagsins til máls, þakkaði fundarmönn-
um fundarsetu og sleit fundi.
Þorgeir Ingi Njálsson
DÓMSMÁLAÞING 9.-10. NÓVEMBER 1995
Dómsmálaþing árið 1995 var haldið á Hótel Sögu dagana 9.-10. nóvember
1995. Fundarstjóri var Stefán Skarphéðinsson sýslumaður og fundarritari
Ingveldur Einarsdóttir settur héraðsdómari.
Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri setti þingið. Hann gerði grein fyrir störf-
um réttarfarsnefndar og kvað hana vera að fara yfir lög um meðferð opinberra
mála. Ekki bæri þó að líta svo á að mörgu yrði þar breytt, heldur væri einungis
stefnt að því að löggjöf um þessi málefni fengi heildarsvip. Þá gerði hann grein
fyrir því að nefndinni hefði einnig verið falið að fara yfír lög um málflytjendur.
Að síðustu kvað hann nefndina vinna að samningu frumvarps til dómstólalaga,
en kvað þó ekki að vænta róttækra breytinga á dómsmálakerfinu með þeim
lögum.
64