Tímarit lögfræðinga - 01.02.2002, Blaðsíða 10
txúa, eins og henni er nú fyrir komið, uppfylli ekki grunnreglur stjórnarskrár um
sjálfstæði dómsvaldsins, svo sem þær verða skýrðar með hliðsjón af 1. mgr. 6. gr.
mannréttindasáttmála Evrópu um sjálfstæða og óvilhalla dómara, til þess að þeir geti
í eigin nafni og á eigin ábyrgð farið með þau dómstörf sem lýst er í bréfi dómsmála-
ráðuneytisins hér að framan".
í minnihlutaatkvæði eins dómara kemur fram að hann telur ekki ástæðu til að
ætla að staða dómarafulltrúanna uppfyllti ekki skilyrði stjómarskrár og mann-
réttindasáttmálans. Það væri í verkahring framkvæmdarvalds og löggjafarvalds
að lagfæra fyrirkomulagið væri þess þörf.
Hæstiréttur Danmerkur hafði fengið hliðstætt sakarefni til úrlausnar og var
niðurstaða hans á svipaða lund og í minnihlutaatkvæðinu íslenska.
Hér lét Hæstiréttur skammt stórra högga á milli í lögskýringum sínum.
Þegar lögin um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, tóku gildi blasti nýr
vandi við þeim sem fást við lögskýringar. Sá vandi er m.a. í því fólginn að sam-
kvæmt lögunum skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til sam-
ræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Ennfremur ber
við framkvæmd og beitingu ákvæða samningsins að túlka þau í samræmi við
úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta og kveðnir hafa verið
upp fyrir undirritunardag samningsins. Hér er komið inn á nýtt svið og lögskýr-
ingar eru orðnar lögbundnar að töluverðu leyti. Ekki nóg með það heldur getur
verið vafa undirorpið hvað af því kraðaki sem samningurinn dregur á eftir sér
eru réttarheimildir að íslenskum lögum eða lögskýringagögn. Hér er sprottinn
upp frumskógur sem erfitt er að rata um og auðvelt að villast í. Það er helst að
harðsvíraðir fræðimenn nái á því einhverjum tökum sem sýnast þó misjafnlega
sannfærandi. Hvað gerist svo þegar heimildarnar taka að stangast á?
I leiðara í 1. hefti síðasta árgangs þessa tímarits var farið nokkrum orðum um
þennan vanda og dóm Hæstaréttar Noregs í máli tryggingafélagsins Storebrand
gegn Veroniku Finanger. Tryggingafélagið hafði neitað Veroniku um bætur
vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í bílslysi sem farþegi með ölvuðum öku-
manni. Samkvæmt norskum lögum átti hún ekki rétt á bótum en EFTA-dóm-
stóllinn taldi í ráðgefandi áliti sínu að þau lög stönguðust á við þrjár tilskipanir
Evrópusambandsins um bifreiðatryggingar. Hæstiréttur Noregs komst að þeirri
niðurstöðu, eins og EFTA-dómstóllinn, að norska lagaákvæðið og tilskipanir
Evrópusambandsins stönguðust á. Meirihlutinn taldi ekki unnt að skýra norska
lagaákvæðið í samræmi við tilskipanirnar, lagaákvæðið gengi framar og
sýknaði tryggingafélagið. Minnihlutinn taldi hins vegar unnt að skýra norska
lagaákvæðið í samræmi við tilskipanirnar og taldi að Vernoika ætti rétt á bótum.
Ekki verður betur séð en í raun sé niðurstaða minnihlutans sú að láta tilskipan-
irnar ráða og víkja norska ákvæðinu til hliðar þótt aðferðin við það sé sú að
beita lögskýringu.
I framangreindum leiðara er þess getið að í Héraðsdómi Reykjavíkur hafi
gengið dómur í máli þar sem sakarefni var svipað og í máli Veroniku Finanger.
I því máli var vikið til hliðar áratuga gamalli íslenskri dómvenju um að sá sem
4