Hugur - 01.01.1991, Side 83
HUGUR
Skúli Pálsson
81
Til að fá hugmynd um samhengi eða heildarmynd af einhverju
þarf ég að setja eina hugmynd saman við aðra. Kant myndi segja að
þegar við skoðum einhvern hlut felast ekki í skoðuninni nein tengsl
við aðra hluti. Ef ég virði fyrir mér eld þá sé ég að hann er bjartur og
heitur, ég skoða bæði eldinn og hitann en samhengið þar á milli er
ekki hægt að skoða: í skoðun minni er bjarminn aðgreindur frá
hitanum. Til að hafa þekkingu á eldinum þarf ég hinsvegar að gera
mér grein fyrir að hvort tveggja er eiginleiki sama hlutar.
Ef ég sé hund úti í garði, held síðan áfram störfum mínum um
stund og sé síðan aftur hund úti í garði, þá er ekkert í skynjun minni í
síðara skiptið sem segir mér að þetta sé sami hundurinn. Ef ég
fullyrði að svo sé, þá felst í dómi mínum eitthvað meira en skynjun
mín, nefnilega það að einhver hlutur, sem er eitthvað annað en hinar
mismunandi skynjanir mínar, tengi þær saman.8 Þannig mætti lengi
telja því þetta á við um alla skynjun. Hver skynjun er einstakur
atburður og það þarf ekki annað en loka augunum til að skynjun rofni
og þegar við opnum þau aftur þá er það sem við sjáum ný skynjun og
í henni felst ekki að það sem við sjáum sé hið sama og við sáum áður,
til að vita það þarf eitthvað annað en skynjunina, og það er ímynd-
unaraflið sem tengir hugmyndina um það sem áður var skynjað við
það sem nú er skynjað.
Hume telur það vera grundvallarstaðreynd um skynjun að hún er í
sjálfri sér sundurlaus og lýsir afleiðingum þeirrar staðreyndar svo:
Þótt vér gerðum ráð fyrir að vitsmunir Adams hafi verið fullkomnir í
upphafi þá hefði hann hvorki getað ályktað af því hve fljótandi og
gagnsætt vatn er að það gæti drekkt honum, né af því hve bjartur og
heitur eldurinn er að hann gæti brennt hann til ösku.9
Kant lét síðan sannfærast um að engin skynjun, eða það sem Hume
kallar „frumskynjanir", hafi í sjálfri sér nein tengsl við aðrar
skynjanir og rök Humes urðu síðan til að vekja hann af hinum
„dogmatíska blundi“ hans.10 Báðir fallast á að þetta sé staðreynd um
8 P. F. Strawson tekur þetta dæmi í „Imagination and Perception" Karíl on Pure
Reason (Oxford University Press, Oxford 1982).
9 David Hume, Rannsókn á skilningsgáfunni (Hið íslenska bókmenntafélag,
Reykjavík 1988), s. 90.
10 Immanucl Kant, Prolegomena zu einer jeden kiinfligen Metapliysik, (Felix Meiner
Verlag, Hamburg 1976), s. 6.
6