Hugur - 01.01.1991, Page 90
88
Hlutur ímyndunar íþekkingu
HUGUR
vitundar, eða eitthvert fyrirfram ákveðið lag sem öll vitund verður að
hafa.
Öll hin margbreytilegu fyrirbæri eru semsagt bundin saman og
vitundin um bindingu þeirra eða sameiningu er um leið kjarninn í
vitundinni um sjálfan sig. Kant vill nú halda því fram að eitthvað sé
skylt með þeirri sameiningu hugmynda sem ér nauðsynleg til að geta
haft vitund um samsemd sjálfs sín og þeirri sameiningu hugmynda
sem verður er mér dettur f hug hiti við að sjá eld. í báðum tiifellum
segir hann að ímyndunaraflið komi við sögu. í síðamefnda tilfellinu
er það svokallað rauntækt ímyndunarafl sem kallar fram hugmyndir
sem áður hafa verið gefnar í reynslunni en í hinu fyrrnefnda á að vera
um að ræða sameiningu sem á sér stað í allri reynslu og hún á að
tengjast ímyndunaraflinu líka. En nákvæmlega hvað er það sem þetta
ímyndunarafl gerir, hvað er sameinað og hvernig?
Tíminn skapar einingu meðal allra hugmynda
Öll fyrirbæri sem hægt er að hafa einhverja reynslu af eru í tíma og
rúmi; eða ef fallist er á að til séu staðreyndir sem ekki eru í rúmi þá
eru allar hugmyndir í tímanum, þær hafa einhverja tímaafstöðu til
allra annarra hugmynda, þær eru ýmist á undan, eftir, eða samtímis.
En tímann og rúmið er ekki hægt að skynja út af fyrir sig án hinna
margbreytilegu fyrirbæra sem í þeim eru. Þekkingu á rúminu og
eiginleikum þess er aðeins hægt að hafa með því að þekkja hluti í því
og tímann er aðeins hægt að þekkja með því að þekkja röð hluta í
tíma. Og það þýðir að ég verð að gera mér grein fyrir einhverju
samhengi eða sameiningu, eins og Kant segir.
Til að öðlast vitund um rúmið verð ég til dæmis að draga línu, en
ég hef ekki þekkingu á henni sem línu nema ég geri mér grein fyrir
að allir punktar hennar mynda einingu. Punktar þessarar línu eru líka
mergð og ef ég sæi ekki sameiningu þeirra þá gerði ég mér ekki grein
fyrir að línan myndar einn hlut og þá þekkti ég ekki rúmið. Hið sama
má segja um tímann. Til að hafa vitund um tímann verð ég til dæmis
að sjá allt sem gerst hefur frá í gær þar til nú sem einingu. Hversu
ólíkir sem atburðirnir kunna að vera sem gerst hafa síðan í gær þá
verð ég að geta gert mér grein fyrir að þeir standa allir í sömu
röðinni.