Dvöl - 01.04.1938, Page 49
Ö VóL
127
Mánudagsmorgunn
Eftir Guðmund Inga
Ég er glaður á mánudagsmorgni
við hin margbreyttu verkefni hans,
jþegar athöfnin örvar og styrkir,
þá er árdegi starfandi manns.
þegar hátíð er liðin og helgi,
tek ég hugreifur störfunum við
meðan vikan er öll fyrir augum
eins og ónumið heillandi svið.
Ef þín helgi til gæfu var haldin,
ferðu hraustur í mánudagsverk,
fylgir hamingja handtökum þínum
og þín hugsun er falleg og sterk.
Og í vikunnar byrjaða verki
eiga vonirnar hjarta þíns sjóð.
Og á hálfbjörtum mánudagsmorgni
eru mótuð hin fegurstu Ijóð.
Heyr mig, starfandi líf, þú sem líður!
Ég á löngun og heilbrigða von
að til mánudagsverka ég vakni
eins og vikunnar snemmborni son.
Meðan höndin er hraustleg og þolin,
meðan hugur er athafnagjarn,
meðan verkefni vinnunnar bíða,
skal ég vera þitt mánudagsbam.
3. jan. 1938.