Búnaðarrit - 01.01.1989, Qupperneq 124
Elín Snæhólm var mikil hannyrðakoma, bæði mikilvirk og listfeng.
Einkum fékkst hún mikið við prjónaskap. Á því sviði vann hún brautryðj-
andastarf og varð landskunn fyrir. Þegar hún enn var ung kona á Sneis,
komst hún upp á lag með að prjóna flíkur úr lopa í stað spunnins bands.
Halldóra Bjarnadóttir, skólastjóri, frétti af þessari nýbreytni og birti viðtal
við Elínu í riti sínu, Hlín. Þannig spurðist þessi nýjung um landið og varð
upphafið á mikilli bylgju lopaprjóns um land allt, og stendur hún í fullu
gildi.
Fyrir þetta stórgagnlega forystuhlutverk í ullariðnaði kaus Búnaðarfélag
íslands hana heiðursfélaga sinn árið 1980.
Hún andaðist 6. apríl 1988, tæplega 94 ára gömul.“
Að minningarorðunum mæltum bað forseti viðstadda að rísa úr sætum og
votta hinum látnu virðingu sína.
Síðan ávarpaði forseti fulltrúa og gesti. Hann hóf mál sitt á því að geta um
afmælisrit Búnaðarfélags íslands, Búnaðarsamtök á íslandi 150 ára, sem út
kom í árslok 1988. Hann kvað ritið vera vandað yfirlitsverk, sem gæfi glögga
mynd af starfseminni frá öndverðu, en einkum eftir að félagið var gert að
landsfélagi um aldamótin síðustu. Síðan vék hann að stöðu Búnaðarfélags
íslands nú og framtíðarhorfum og mælti á þessa leið:
„Og nú ber einmitt svo til, að í kringum þetta merkisafmæli, sem við
héldum hátíðlegt með nokkurri viðhöfn, hafa verið að hrannast upp á
sjóndeildarhring Búnaðarfélags íslands býsna dökkleit ský, sem ekki er
auðvelt að spá í, til hvers muni leiða á næstunni, hvað þá, þegar fram líða
stundir.
Líklega má segja, að allt félagskerfi landbúnaðarins sé svo sem á
hverfanda hveli um þessar mundir. Og líklega eru allir sammála um, að það
sé orðið allt of flókið og þungt í vöfum. Við getum lýst því á líkingamáli sem
tvístofna tré á einni rót með mörgum greinum, stórum og smáum. Upp á
síðkastið hefur greinunum fjölgað með tilkomu svokallaðra búgreinafé-
laga, sem leitazt við að tengjast stofnunum á einhvern hátt. Útkoman er
ekki fríður meiður í trjágarðinum, heldur hálfgerður vanskapningur, sem
óhjákvæmilegt er að höggva eitthvað til, ef hann á að lifa góðu lífi til
frambúðar.
Spurningin kemur þá af sjálfu sér: Hvernig reiðir hinum gamla meiði,
Búnaðarfélagi íslands, af í þeirri aðgerð? Og þá meina ég allan félagsskap-
inn, ekki bara þann tiltölulega litla hluta hans, sem á sér samastað hér í
Bændahöllinni við Hagatorg. Ég mcina hreppabúnaðarfélögin, rösklega
200 að tölu, ég meina búnaðarsamböndin 15, og ég meina líka að sjálfsögðu
þjónustumiðstöðina og stjórnstöðina hér í húsinu, sem menn eiga almennt
við, þegar sagt er Búnaðarfélag Islands. Og að lokum meina ég Búnaðar-
þing sjálft.
Búnaðarfélögin í hreppunum voru flest stofnuð á seinustu 2-3 áratugum
122