Morgunblaðið - 22.02.2009, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 22.02.2009, Blaðsíða 16
16 Við manninn mælt MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 22. FEBRÚAR 2009 Eftir Pétur Blöndal pebl@mbl.is Í guðs bænum, við skulum nú ekki hafa þetta heilt Morgunblað,“ segir Einar Leifur Pétursson og býður blaðamanni til sætis „í stássstofunni“ á Minni-Grund. „Þó að ég sé svona gæi, þá er ég mikið fyrir að vera heldur svona álengdar – að geta togað í spotta baka til,“ bætir hann við bros- andi. Svo flýtir hann sér að segja: „Æ, ég veit það ekki – ég er víst hættur að toga í spotta.“ Lilli manni Foreldrar Einars voru Ólafía Einarsdóttir og Pétur Lárusson „fulltrúi á skrifstofu Al- þingis Íslendinga eins og það var orðað í síma- skránni“, en Pétur vann þar í tæpa hálfa öld. Það var gott með feðgum og hangir málverk af föðurnum yfir rúmi sonarins áttræðum í her- berginu á Minni-Grund, en það er eftir Gunn- laug Blöndal. Einar er fæddur og alinn upp í Vest- urbænum og hefur aldrei verið búsettur fyrir austan læk. „Í heiminn kom ég heima hjá mér á Sólvallagötu 25, húsið nefnist Hof, og þar bjó ég mína hundstíð,“ segir hann. „Ég þekkti hvorugan afa minn, en ólst upp með báðum ömmum mínum og það var mikill skóli. Móðuramma mín var Guðleif Erlends- dóttir frá Breiðabólstað á Álftanesi, dóttir Er- lendar Erlendssonar útvegsbónda. Hún giftist manni sem fórst með báti úr útgerð Erlendar. Svo giftist hún aftur Einari Ketilssyni, sem dó ungur árið 1900, en hann var í fyrsta árgangi gamla Stýrimannaskólans. Ég man að einn kapteinn, Kristinn Markússon, kom oft á af- mælisdegi þessa afa míns og færði ömmu eitt- hvað.“ Kirstín Katrín Pétursdóttir var „hin amm- an“, dóttir Péturs Guðjónssonar, fyrsta lærða organistans á Íslandi. „Hann hét Guðjohnsen á meðan hann var í námi í Danmörku,“ segir Einar. „Guðjohnsenarnir halda enn því nafni. Hún var ákaflega heyrnardauf, kunni ekki við heyrnartæki sem þá voru á frumstigi, en af- skaplega músíkölsk. Og kallaði mig lilla manna. Ég var langyngstur þriggja systkina og gutlaði á píanó. Hennar uppáhald var Beethoven og til að geðjast henni klæmdist ég í gegnum hann lítilsháttar … æ, svo brá ég mér yfir í annað og sá að hún fylgdist með – tók allt í einu eftir að hún var farin að dilla fæt- inum við King for a Day! Eftir það kom hún til mín og sagði: „Lilli manni minn, þetta var nú ekki beinlínis Beethoven, en þetta var ágætt.“ Ömmurnar Það hafði mótandi áhrif á lilla manna að alast upp með ömmum sínum. „Já, almátt- ugur,“ segir hann. „Þær voru ákaflega ólíkar. Móðuramma mín var hörkudugleg, sumir sögðu frek, en ég varð aldrei var við það. Hún vann við hjúkrun og fékk eftirlaun sem fyrr- verandi hjúkrunarkona á fjárlögum, þrátt fyr- ir að ekkert væri til sem hét hjúkrunarkona eða -fræðingur þá. Hún átti eftir eina dóttur, það gekk barnaveiki sem drap allt saman, þannig að mamma varð ein eftir og ólst upp hjá henni og í skjóli frændfólksins. Svo var amma þannig, að hún sagði: „Mín dóttir, hún þarf að læra, ekkert annað en það.“ Og hún lét hana taka inntökupróf í Menntaskólann, sem hún stóðst og var þar með alls konar stór- mennum, eins og Helga Tómassyni og Níelsi Dungal.“ – Það hefur verið sár reynsla að missa frá sér börnin sín? „Amma var einstaklega æðrulaus. Næstsíð- asta barnið hennar var Guðrún Lárusdóttir, alþingiskona og bæjarfulltrúi, sem fórst í Tungufljóti 20. ágúst 1938. Ég man að ég og Lalli bróðir minn vorum viðstaddir þegar föð- ur mínum var tilkynnt þetta. Amma bjó þá heima hjá okkur í Hofi og við fórum öll saman að tilkynna henni þetta. Þá sagði hún þessi orð, sem mér eru svo ógleymanleg, dæsti og sagði svo: „Verra gæti það verið, þig á ég þó eftir Pétur minn.“ Hin amma mín, dóttir Péturs gamla Guð- jónssonar, giftist ungum guðfræðistúdent, Lárusi Halldórssyni frá Hofi í Vopnafirði, og hann er afi minn í þá ættina. Hann var fyrst prestur fyrir austan. Það kom upp óánægja með sóknarprestinn og úr varð að fríkirkju- söfnuðurinn á Íslandi var stofnaður í kringum það. Hann varð fyrsti prestur þeirra, en aðeins fyrir austan, því hann dó svo ungur.“ Einar vann sem þingsveinn á unglingsárun- um. „Þá var skylt að hafa tvo þingsveina í neðri deild og einn í efri deild, til að hægt væri að senda mann eftir brennivíni og fleiru,“ segir hann og hlær. „Ég var þrettán ára og bannað að afgreiða mig, þurfti skilríki upp á það, en ég þekkti Guðbrand í ríkinu, var jafnaldri sonar hans. Ætli ég hefði ekki getað tekið út fyrir sjálfan mig líka – ef ég hefði verið kominn í sopann!“ Þingsveinn Þetta var síðla á fjórða áratugnum, en þá sat meðal annarra á þingi Gísli Sveinsson, þing- maður Vestur-Skaftfellinga. „Ég hafði aðsetur uppi á efsta lofti í þinghúsinu og pallarnir voru þar fyrir framan,“ segir Einar. „Svo varð ég var við að Gísli sendi þingsvein eftir brenni- víni! Ég vissi að ekki mátti biðja strákinn um það og sagði: „Þú átt að segja góurinn, að þú sért sendur af Gísla Sveinssyni, forseta sam- einaðs Alþingis, að sækja pöntun. Og hvað áttu nú að segja?“ Strákurinn endurtók rulluna, fór svo og keypti það sem um var rætt, og þegar hann kom til baka spurði Gísli hvað sagt hefði verið við hann. „Þeir sögðu ekki neitt – þeir bara hlógu,“ svaraði strákurinn. Þetta er ein af þeim mannkynssögum sem má ekki segja!“ Einn daginn hélt Einar Olgeirsson eina af sínum maraþonræðum og fór þá að lesa upp úr Morgunblaðinu. „Hann las úr greinum eftir Ólaf Thors. Ólafur sat við gluggakistuna, brosti í kampinn og sagði: „Ég verð að segja, að hann skrifar prýðilega, þessi maður.“ Þá hlógu allir í þingsalnum.“ – Hvað finnst þér um að eggjum sé kastað í þinghúsið? „Mér finnst það skrílsháttur, hreint út sagt,“ svarar Einar, „að ráðist sé á saklausa og fallega byggingu eins og þinghúsið og eggin eyðilögð!“ – Þú hefur ekki viljað fara sjálfur í pólitík? „Nei, ég get ekki sagt það, en mér stóð það til boða. Ég var í Vöku í Stúdentaráði fyrsta árið mitt í Háskólanum, trúlega af því að ár- gangurinn okkar var svo stór og ég átti eitt- hvað í honum. Svo fór ég ekkert í það aftur fyrr en ég varð varaformaður í Stúdentafélagi Reykjavíkur þegar búið var að endurreisa það. En það var ósköp gaman að lifa og við lifðum lífinu lifandi þá, gerðum alls konar vitleysur, það gera allir menn meira eða minna.“ Kreppan og stríðið Einar segist bara hafa verið stráklingur í kreppunni miklu og stríðinu sem fylgdi í kjöl- farið. „Ég varð var við allt þetta í kringum mig, en heima varð ég ekki var við neitt. Faðir minn vann mikla aukavinnu og þar var alltaf nóg að bíta og brenna. En ég man að móðir mín sendi mig alloft með mat í nokkur kot. Einu sinni var karlinn sem við hjálpuðum veik- ur, svo mamma fékk nágranna sinn Matthías Einarsson til að líta til með honum. Karlinn fékkst ekki úr rúminu, en Matthías gaf sig ekki og loks var hann fluttur á spítala. Þá kom í ljós af hverju hann vildi ekki rísa úr rekkju. „Það var engin furða,“ sagði Matthías móð- ur minni, „því hann lá á helvíti miklum sem- entspoka fullum af fimmeyringum.“ Það var stór upphæð. Matthías var húmoristi og kall- aði þetta allt fimmeyringa, en ég man að þarna voru spesíur og ríkisdalir. Það gat verið klókt að ná sér í ölmusu hjá bænum.“ Einar varð stúdent lýðveldisárið. „Við út- skrifuðumst 17. júní árið 1944 fyrir hádegi. Ég var inspector scholae og þurfti að halda ræðu, athöfnin var örstutt, því svo fóru allir á Þing- völl.“ – Og dagurinn hefur verið eftirminnilegur? „Vissulega, þetta var í lok stríðsins og allt annað hugarfar en í dag. Nú eru allir svo böl- sýnir. Víst eru erfiðir tímar, en þeir eru ekki bara hér, heldur úti um allan heim. Erfiðleik- arnir eru hafðir til þess að vinna sig upp úr þeim, ekki satt?“ segir hann með áherslu, hall- ar sér aftur í stólnum og hlær. „Þetta var nú speki.“ – Áttirðu samskipti við hermennina? „Nei, ég þótti ekki líklegur til þess. Á þess- um tíma fékkst ekkert sælgæti og einu af- skiptin sem ég man eftir var þegar ég stóð fyr- ir utan kantínuna í Vonarstræti, alveg við Tjörnina, og sendi þá inn eftir súkku- laðipökkum. En ég var kallaður nasisti, af því að ég vildi Ísland frjálst. Þegar herinn gekk á land 10. maí árið 1940, þá gekk ég með sorg- arband þann daginn árið eftir. Ég vissi ekki fyrri til en tveir lögreglumenn, annar íslenskur og hinn breskur, tóku mig umsvifalaust og keyrðu inn á Kirkjusand. Ég brúkaði æstan kjaft, var sæmilega að mér í ensku, og hitti á kúltiveraðan strákling frá Oxford. Eftir að við töluðum saman var ég látinn laus og það voru einu afskiptin af hernáminu. Þetta var ólíkt mótmælunum í dag.“ – En þú varst kallaður nasisti? „Það getur vel verið að ég hafi haft sympatíu með því, en það eina sem gat valdið þessu við- urnefni var að ég gekk einhvern tíma í fylking- unni 1. maí. Þar voru tvær breiðfylkingar, ann- ars vegar þjóðernissinnar og hins vegar kommarnir. Ég var úniformlaus og hafði sæmilegan rytma, þannig að við Fúsi Halldórs gengum fremst, af því ég gat trommað sæmi- lega göngulagið. Þetta voru nú öll afskiptin.“ Nóg að gert Einar er enn „ungur maður miðað við aldur“ og nam lögfræði, „lífsins speki, fræðin um lífið sjálft, og svo hóf ég minn feril á því að dæma fólk, sem fullmektugur hjá sakadómara. En það átti ekki við mig; mér þykir leiðinlegt að sekta fólk og svo þekkti ég annan hvern sem ég þurfti að taka fyrir“. Og við tóku 16 ár sem fulltrúi borgarstjór- ans í Reykjavík, Gunnars Thoroddsens, sem hafði kennt Einari í Háskólanum. „Hann var mikill vinur minn,“ segir Einar. „Það þurfti að tala við fólkið, sýna því og sinna því, og hann var feginn að hafa mann sem nennti að hlusta.“ Eftir það varð Einar skrifstofustjóri borg- arverkfræðings „og svo fór ég loks að sinna mínum hugðarefnum – þóttist hafa nóg að gert“. Einar kvæntist Kristjönu Kristinsdóttur frá Húsavík árið 1955. „Hún er löngu dáin,“ segir hann. „Hún var svolítið eldri en ég og átti ekk- ert barn, en við tókum strax barn og ég á afa- börn og langafabörn. Ég lét þessa einu konu nægja, enda dugði það í 33 ár. Það gekk allt skikkanlega.“ Mótmælin Er þetta ekki gamla sagan, það þarf ekki nema einn gikk, og þá koma margir á eftir,“ segir Einar loks um mótmælin á Austurvelli. „Mér finnst gleymast, að þetta er ekkert séríslenskt fyrirbæri – þetta hefur gerst um allan heim – ég tala nú ekki um í Evrópu. En það kemur mér eiginlega ekkert á óvart í nú- tímanum. Mér fannst best þegar talað var við eina, sem sagðist ekki hafa hugmynd um hverju hún mótmælti, það væri bara svo gam- an að vera í þrönginni.“ Einar segist ekki taka þátt í neinum fjölda- hreyfingum og bætir við: „Nema þeim sem ég stjórna sjálfur!“ Svo lítur hann sposkur á blaðamann. „Fólk veit ekkert hverju það er að mótmæla – það bara mótmælir.“ Fólk bara mótmælir Morgunblaðið/Árni Sæberg Gæinn Einar Leifur Pétursson mælir með því að prófa allt og halda því sem er gott. ‘‘ÞÁ SAGÐI HÚN ÞESSI ORÐ,SEM MÉR ERU SVO ÓGLEYM-ANLEG, DÆSTI OG SAGÐI SVO:„VERRA GÆTI ÞAÐ VERIÐ, ÞIG Á ÉG ÞÓ EFTIR PÉTUR MINN.“
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.