Saga - 1981, Blaðsíða 156
154
PÁLL MELSTED
Ef hann leitar hins rétta og sanna, þá verður hann ágætur þing-
maður með meiri reynslu. Ritarinn er í aðra rönd ótækur þing-
maður, hann er svo frekur og sauðþrár og eins og kunni ekki
annað en þetta: „skipið er nýtt, en skerið fornt, og skal því undan
láta,“ enda kollhleypur hann sig á hverjum degi. Bened. Sveinss.
drekkur ekkert, og talar stundum og með köflum mjög vel, en
hann vantar smekk, fegurðartilfinning, og því verður alt stundum
sóðalegt hjá honum: röddin, og allir líkamans tilburðir. Hefði
hann gengið í skóla hjá sönnum mælskumanni, mundi hann hafa
orðið góður Orator. — Grímur og Arnljótur heyri ég að sumir
segja, að hafi mest álit á sér meðal þingmanna. Jón á Gautl. er
duglegur forseti. Þinghúsið og þingsalirnir eru fagrir, en illa heyr-
ist í þeim; ég held Danir kunni ekki sem bezt að byggja fyrir þá
sem illa heyra, eins og ég er. —
Veðráttan er góð — ég held um alt land — en allflestir tala um
mesta grasbrest, og það úr öllum áttum. Það eitt er víst að kúpen-
ingur týnir tölunni í haust. —
í kvöld byrjar Guðm. Hjaltason i þinghúsi Rvíkur að halda
fyrirlestur ,,um fyrirkomulag, mark og mið þeirra norrænu
alþýðuskóla, sem gera norræna fornfræði og mál að undirstöðu
allra þjóðlegra og vísindalegra menta.“ Enginn hugsaði fyrir 30,
40 árum síðan að slíkt mundi heyrast hér, og það er margt, sem nú
sést hér, heyrist og gjörist, sem engum datt í hug fyrir Vi eða
heilum mannsaldri. —
Nú fá líklega konur kosningarrétt á mannfundum, eins og karl-
ar. Það þakka ég kvennaskólahugmyndinni, sem er að ryðja sér til
rúms, þó hún hafi átt við ýmislegt að stríða. Ég vona að konan
mín hafi ekki starfað og strítt til ónýtis, því hennar er hugmyndin.
Ein stúlka hefir komið úr Eyjafirði hingað í okkar skóla í fyrra
haust, Dýrleif Sveinsdóttir að nafni. Hún var hér efst og er af-
bragðsstúlka. Hvað er að tala um Eyjafjörðinn, enda munum við
báðir vera þar fæddir. Fyrirgefið þetta hrip, sem 2 gufuskip eiga
að færa yður, fyrst Waldem. til Austfjarða, so Arkturus þaðan
til Hafnar.
Lifið í góðum guðsfriði, yðar elsk. vin
Páll Melsted.