Saga - 1981, Blaðsíða 333
RITFREGNIR
331
legum rannsóknum á ýmsum hliðum verðbreytinga og verðlagskerfa á
margra alda bili.
Loks fremsta greinin, „Völd og auður á 13. öld“ eftir Gunnar Karlsson,
nánast beint svar við nýlegri grein Helga Þorlákssonar sem aftur var að
verulegu leyti beint gegn niðurstöðum Gunnars í Sögugrein 1972. Hvort
sem þau viðurskipti eru hér með á enda kljáð, eru þau þegar orðin glæsi-
legt dæmi um gagnsemi þess að rannsóknir einstakra sagnfræðinga haldist
í hendur við rökræður þeirra í milli; og getur Saga fátt betur gert en að vera
vettvangur slíkra umræðna.
Helgi Skúli Kjartansson.
Jón Thor Haraldsson: MANNKYNSSAGA 1492-1648. Mál
og menning 1980. 437 bls.
Viðfangsefnið
Viðfangsefni þessa rits er saga mannkyns, og þó einkum Evrópuþjóða,
á tímabilinu 1492-1648. Við upphaf þessa skeiðs sigldi Kristófer Kólumb-
us vestur um haf og ,,fann“ Ameríku, en lok þess markast af „West-
falska friðnum," svonefnda, 1648. Þá lauk þrjátíu ára stríðinu og samið
var um ríkjaskipan í Evrópu, sem hélst að mestu til loka 18. aldar.
Tímabilið 1492-1648 er eitt hið merkasta, umbrotamesta og róstusam-
asta í sögu norðurálfu. Við upphaf þess stóð endurreisnin í blóma á Ítalíu
og veldi páfastóls virtist traustara en nokkru sinni fyrr. Miðjarðarhafið
var enn þjóðbraut viðskipta norður- og austurálfu og ríkin, sem að því
lágu, hin blómlegustu.
Um lönd Norður- og Vestur-Evrópu giltu enn að nokkru hinar fornu
latnesku lýsingar um köld, rök og menningarsnauð héruð. Mörgu hafði
að vísu fleygt fram í þessum löndum frá því sem var í fornöld eða á ármið-
öldum: Fólki hafði fjölgað stórum, nýtt land hafði verið brotið til rækt-
unar, auður vaxið og ríkin tekið á sig fastari mynd. Engu að síður var
fátt, sem benti til þess, að þessi ríki myndu á einni öld hrifsa frumkvæðið
í siglingum, verslun og stjórnskipulagi úr höndum ríkjanna við Mið-
jarðarhaf og gerast drottnarar heimsins.
Siglingar Evrópumanna vestur um Atlantshaf til Ameríku og suður um
Afríku til Indlands og annarra landa Asíu, gjörbreyttu hinni gömlu
heimsmynd. Þungamiðja verslunar, siglinga og viðskipta í Evrópu færðist
frá ströndum Miðjarðarhafs til vesturstrandar Evrópu. Lissabon,
Amsterdam og Lundúnir urðu mestar verslunarborgir norðurálfu í stað
Feneyja, Napóli og fleiri ítalskra hafnarborga.
Um svipað leyti hófu þýskir, franskir og flæmskir guðsmenn — að
nokkru fyrir áhrif endurreisnarinnar — uppreisn gegn páfakirkjunni, og