Árbók VFÍ/TFÍ - 01.06.2002, Síða 238
líkanið allvel að gögnunum. Reyndar batna bæði líkönin verulega ef veðrunarstöð nr. 14
er sleppt og er ástæða þess rakin til sérstakra aðstæðna á umræddum stað en ekki talið
að skekkja sé í gögnunum.
Umfjöllun
Mæligildi sem fyrir liggja um fyrsta árs tæringu gefa upplýsingar um veðrunartæringu
málma á Islandi og auðveldar það allan samanburð við önnur lönd. Veðrunartæring hér-
lendis reynist liggja í tæringarflokkum 2-4 samkvæmt skilgreiningu staðalsins ISO 9223.
Spálíkön sem finna má í heimildum eru ekki heppileg fyrir íslenskar aðstæður, sem sýnir
að tæringarumhverfi er mjög mismunandi eftir löndum. Salt í andrúmslofti virðist vera
einn helsti áhrifaþáttur málmtæringar hérlendis en áhrif S02 lítil í samanburði við önnur
lönd. Mæld málmtæring er mjög mismunandi eftir stöðum á landinu og ljóst að þetta má
skýra með ýmsu móti. I fyrsta lagi er veðurfar mjög mismunandi, eins og gerð er grein
fyrir í kaflanum um veðurfar og í öðru lagi er fjöldi mæligilda takmarkaður og flest gildin
liggja frekar þétt saman, sjá mynd 2. Því er ekki hægt að meta út frá gögnunum hvort tvö
hæstu gildin endurspegli umhverfisaðstæður eða séu einfarar í tölfræðilegum skilningi.
Þessi tvö gildi gefa þó ekki mesta skekkju í líkönunum og með meiri mælingum má
sennilega skýra þau út frá veðurfari.
Spálíkönin sýna sérlega lélega nálgun varðandi mæligildi frá veðrunarstöðvunum nr. 7
(Þórshöfn), nr. 14 (Búrfell) og nr. 16 (Svartsengi). Fyrir stöð nr. 7 er reiknaða gildið hærra
en mælt gildi, stöðin er óvarin fyrir norðaustanáttum af hafi, en slíkur vindur kemur
aftan á mælistöðina og merkist því sennilega minna heldur en vænta má á framhlið
sýnanna (krossviðarbakið hlífir sýnunum). Stöð nr. 14 er hinsvegar um 50 km inni í landi
og reiknuð gildi vanmeta tæringarumhverfið. Landslag frá strönd og að veðrunarstað er
slétt og aðeins smáásar á leið vinds frá hafi, því virðist sem reiknimódelið ofmeti fjarlægð
frá sjó í þessu tilviki. Stöð nr. 16 er vanmetin í útreikningum, stöðin er nærri gufu-
aflsvirkjun og eina stöðin í verkefninu þar sem áhrifa jarðhitagufu, eða efna úr henni,
gætir að marki. Hvort og þá hve mikil þessi áhrif eru er ekki ljóst að svo stöddu, en gerðar
verða mengunarmælingar við stöðina til að kanna aðstæður nánar.
Eins og þegar hefur verið nefnt þá er tæringarhraðinn mældur sem þyngdarbreyting
sýnis deilt með flatarmáli þess að teknu tilliti til beggja hliða. Vegna þess hvernig sýnin
eru sett upp, og í fullu samræmi við kröfur staðals, þá er ljóst að hliðar sýna eru ekki í
sambærilegri stöðu þar sem önnur er varin fyrir beinni úrkomu. Sjónskoðun sýnir að
báðar hliðar tærast, en hinsvegar er ólíklegt að þær tærist jafnhratt þar sem mengun í
andrúmslofti mun setjast misjafnt á fletina og hið sama gildir um áhrif úrkomu sem þvær
mengun af yfirborði. Sýni sem væru gerð eins og lokuð dós væru heppilegri að þessu
leyti, en þá væri erfitt að skoða áhrif mismunandi áttunar sýna. Þó er mjög forvitnilegt að
mæla tæringu annarsvegar á fleti sem snýr „upp" og hinsvegar fleti sem snýr „niður" og
verður það gert í framhaldinu.
Það er vel þekkt að hitastig hefur áhrif á hraða efnabreytinga og því athyglivert að
flokkun umhverfis í staðlinum ISO 9223 er óháð lofthita og lofthiti ekki nefndur sem
áhrifsvaldur. Algeng spálíkön nota lofthita ekki heldur sem breytistærð að öðru leyti en
því að vætutíminn (TOW) er jú fall af lofthita. Líkönin byggja ennfremur á notkun
ársmeðalgilda á orsakaþáttum. Ástæður þess hversu litla athygli lofthitinn hefur fengið
má rekja til þess hve áhrif mismunandi hita greinast illa í mælingum við náttúrulegar
aðstæður og í líkanagerð. Bæði hafa upplýsingar verið frá afmörkuðum svæðum með
innbyrðis svipaðan meðallofthita og áhrif mengunar (þegar hún er til staðar) verða
ráðandi. Nú virðist vaxandi áhugi á að lagfæra líkönin að þessu leyti, en í þeim tilgangi
þurfa að liggja fyrir niðurstöður úr prófunum við eins fjölbreyttar aðstæður og kostur er.
Þá er ekki síður áhugavert að skoða hvort yfirleitt sé eðlilegt að nota ársmeðaltöl
veðurþátta sem mat á áhrif veðurfars á t.d. tæringu. Breytileiki í veðurfari, s.s. hversu oft
regn þvær yfirborð, getur verið sterkari áhrifsþáttur heldur en meðalástandið eitt og sér.
2 3 4
Arbók VFl/TFi 2002