Árbók VFÍ/TFÍ - 01.06.2002, Page 309
búnaðinn og segja honum frá því sem hann gerir
rangt. Með þessu móti lærist honum smátt og smátt
hvernig eigandinn ber fram einstök orð og hann
verður getspakari með tímanum. Með nokkru nostri
er hægt að fá búnaðinn til að skilja yfir 98% af þeim
orðum sem hann heyrir, en ávallt verður að bera
fram skýrt og greinilega. Það er þó ekki til bóta að
þylja upp eitt og eitt orð með langri þögn milli orða.
Best er að tala samfellt greinilegt mál.
Nú er það ljóst að sama tungumálið er borið fram á
marga vegu. Til dæmis á enskan sér mörg afbrigði á
Bretlandseyjum, í Ameríku og enginn vandi er að
giska rétt á uppruna manna sem koma úr Eyjaálfu.
Við bætast allir útlendingarnir sem mæla á ensku og
hafa mjög greinileg upprunaeinkenni. Nægir þar að
nefna Frakka, Þjóðverja, Svía og íslendinga. Tungu-
tæknibúnaður er oftast boðinn fyrir nokkrar mál-
lýskur enskunnar, t.d. breska, ameríska og ástralska
ensku. Þeir sem tala öðruvísi þurfa að reyna að
sveigja mæli sitt sem mest að einhverju þessara
afbrigða. 1 litlu rannsóknarverkefni sem Rannís
styrkti og unnið var í samvinnu rannsóknardeildar
Símans og Vika ehf. var m.a. reynt að kenna enskum
búnaði íslensk orð. Það reyndist auðvelt að kenna honum orð sem skera sig auðveldlega
úr öðrum eins og t.d. „Landssímahúsið". Önnur orð, einkum þau stuttu, reyndust mjög
erfið viðureignar enda reyndi búnaðurinn alltaf að finna það enska orð sem honum þótti
líkast því íslenska. 1 verkefninu var einnig prófað hvernig búnaðurinn stæði sig í
meðförum sex Islendinga sem töluðu ensku hver með sínum hreim. I ljós kom að eftir
allmikla þjálfun varð búnaðurinn vel nothæfur. Hins vegar þurfti búnaðurinn mismikla
þjálfun eftir því hver í hlut átti. Dæmi um orð sem greinarhöfundi tókst ekki að fá
búnaðinn til að skilja var „into". Var heiglum hent hvort út kæmi „in two", „in too" eða
„into".
Eins og fyrr er greint er gífurlegur orðaforði byggður inn í þá hugbúnaðarpakka sem nú
fást eða um 300 þúsund orð. Til samanburðar eru um 90 þúsund uppflettiorð í þriðju
útgáfu íslenskrar orðabókar og orðafjöldi í íslendingasögunum er tæplega 12500 [4].
Ef orðaforði tungutæknibúnaðar er minnkaður minnka jafnframt kröfurnar til tölvunnar
sem keyrir búnaðinn. Þannig getur dæmigerð handtölva keyrt talgreini sem ræður við
40 þúsund orð án þess að draga umtalsvert úr afli tölvunnar til annarra verka [5]. Með
þessu verður handtölvan mun notkunarvænni en áður, margar handtölvur hafa engin
lyklaborð og þurfa notendur að handskrifa textann inn á þær eða notast við skjámynd af
lyklaborði þar sem stutt er á einn lykil í einu með penna. Ritunin á handtölvur er því
ávallt hægvirk. Að geta talað við handtölvur byltir notagildi þeirra, mynd 1.
Ljóst er að tungutæknin nemur ekki staðar við handtölvurnar. Hún hefur þegar haldið
innreið sína í GSM-síma en hægt er að kenna þeim stutta frasa eins og „hringja heim".
Yfirvofandi er að tungutæknin sýni sig í bílum, myndavélum, ljósarofum heimilistækjum
og hvers kyns öðrum tækjum sem menn þurfa að stilla og stjórna. Þessi þróun er
óhjákvæmileg vegna þess að talið er sá samskiptamáti sem fólki er eiginlegastur og
búnaðurinn sem skynjar og skilar talinu er margfalt smávaxnari en lyklaborð og skjár.
Framfarir í hálfleiðaraframleiðslu undanfarna áratugi hafa þegar skilað örgjörvum sem
ráða vel við verkefnið og ekki hillir undir neinn samdrátt á því sviði. Markaður fyrir
tungutækni í hvers kyns búnaði (e. embedded applications) er talinn þrjátíufaldast í
Bandaríkjunum á næstu fjórum árum [5].
Tækni- og vísindagreinar
3 0 5