Einkaneysla 1957-1987 - 01.12.1989, Blaðsíða 11
lægri niðurstöður. Að mati Þjóðhagsstofnunar er það eitt af þýðingarmestu verkefnum á sviði
þjóðhagsreikningagerðar að leitast við að samræma þessar niðurstöður eftir því sem kostur er.
Eins og áður segir er tilgangur þjóðhagsreikninga að setja fram tölulega og á kerfisbundinn hátt
yfirlit yfir efnahagsstarfsemina í þjóðarbúskapnum í heild. Áhersla er lögð á heildarmyndina og því
þarf iðulega að byggja á misjafnlega traustum heimildum. Þess eru einnig allmörg dæmi að geta þurfi í
eyður fyrirliggjandi heimilda og vega og meta heimildir eða vísbendingar þegar þær stangast á. Allt er
þetta gert til þess að fá tímaraðir sem eru samræmdar og samfelldar og lýsa breytingum á einstökum
stærðum frá ári til árs, bæði á verðlagi hvers árs og einnig á föstu verðlagi eins og nánar verður lýst í 4.
kafla hér á eftir. Áherslan á samræmdar tímaraðir veldur því einnig að iðulega reynist nauðsynlegt að
endurskoða þjóðhagsreikningatölur sem áður hafa verið birtar vegna þess að nýjar og betri heimildir
fást.
Annað tilefni til þess að endurskoða áður birtar þjóðhagsreikningatölur gefst þegar kerfisbreyt-
ingar verða á þeim alþjóðlegu stöðlum sem Sameinuðu þjóðirnar leggja til að notaðar séu. Síðasta
endurskoðun af þessu tagi varð áárinu 1968 er Sameinuðu þjóðirnar gáfu út núgildandi þjóðhagsreikn-
ingakerfi, „A System of National Accounts" SNA, sem áður var vitnað til. Aðlögun íslenskra
þjóðhagsreikninga að þessu kerfi lauk að hluta á árinu 1985 en þá voru allar þjóðhagsreikningatölur frá
1980 og síðar samræmdar hinu nýja kerfi. Gerð var grein fyrir þessari endurskoðun í skýrslu nr. 4 í
ritröð Þjóðhagsstofnunar um þjóðhagsreikninga en hún kom út á miðju árinu 1985. Síðla árs 1986 var
síðan lokið við að samræma tölur áranna fyrir 1980 hinu nýja þjóðhagsreikningakerfi og eftir það hafa
allar tölur frá Þjóðhagsstofnun verið í samræmi við hið nýja kerfi.
1.2 Einkaneyslan í samhengi annarra þjóðhagsstærða.
Af framansögðu má ljóst vera að einkaneyslurannsóknir eru liður í fyrsttöldu aðferðinni, þ.e.
ráðstöfunaruppgjörinu. Þessar rannsóknir eiga sér jafnlanga sögu hérlendis og ráðstöfunaruppgjörið.
Elstu tölur samkvæmt þessari aðferð ná aftur til ársins 1957 og er þessari skýrslu því ætlað að ná til alls
þess tíma sem samfelldar einkaneyslurannsóknir spanna.
Við vinnslu ráðstöfunaruppgjörsins notfæra menn sér þá staðreynd, að þeim verðmætum, sem
myndast í þjóðarbúskapnum, er jafnframt ráðstafað, annaðhvort til neyslu eða fjárfestingar (þ.m.t.
birgðabreytinga). Summa þessara tveggja liða að viðbættum útflutningi en að frádregnum innflutningi
vöru og þjónustu, er þá jöfn landsframleiðslunni. Samhengi þessara þjóðhagsstærða má tákna á
jöfnuformi með eftirfarandi hætti:
GDP= C + G +1 + B + (X - M)
þar sem GDP táknar : verga Iandsframleiðslu
C “ : einkaneyslu
G “ : samneyslu
I “ : fjárfestingu
B “ : birgðabreytingu
X “ : útflutning vöru og þjónustu
M “ : innflutning vöru og þjónustu
Neyslunni hefur hér verið skipt í tvennt, einkaneyslu og samneyslu, og birgðabreytingar eru
sýndar sérstaklega. Þetta form þjóðhagsreikninga er sennilega það sem algengast er og oftast birt.
Jöfnuformið gefur til kynna að með því að meta sjálfstætt hvern einstakan lið í hægri hlið jöfnunnar,
þ.e. einkaneyslu, samneyslu o.s.frv., megi að lokum fá niðurstöðu um verðmæti landsframleiðslunnar.
Þessi skýrsla fjallar um einn þátt ráðstöfunarinnar, þ.e. einkaneysluna. Á árinu 1986 var innbyrðis
skipting þessara liða sem hér segir:
9