Einkaneysla 1957-1987 - 01.12.1989, Blaðsíða 25
2202 Skóviðgerðir.
Áætlanir um útgjöld til skóviðgerða eru reistar á veltutölum í atvinnugrein 242, skóviðgerðir. Til
að nálgast heildarútgjöldin á árinu er söluskatti bætt við sölutekjur án söluskatts í skóviðgerðum
samkvæmt atvinnuvegaskýrslum Þjóðhagsstofnunar. Smásöluverðmæti skóviðgerða á föstu verði er
fundið með vísitöluaðferð þar sem byggt er á vísitölu skóviðgerða í framfærsluvísitölunni.
3. Húsnœði, Ijós og hiti.
3.1 Reiknuð húsaleiga.
Fram til ársins 1977 var húsnæðiskostnaður að stærstum hluta reiknað leiguígildi íbúðarhúsnæðis á
landinu sem byggt var á áætlunum um markaðsleiguna. Auk þess voru meðtalin iðgjöld til heimilis- og
húseigendatrygginga að frádregnum tjónagreiðslum. í þriðja lagi var áætluðum húsgjöldum íbúða í
blokkum bætt við sem öðrum útgjöldum vegna eigin íbúðarhúsnæðis. Leiguígildi var áætlað með
upplýsingum um fjölda íbúða á íslandi og upplýsingum um meðalhúsaleigu sem fram komu í gögnum
stjórnar Verkamannabústaða á Islandi. Byggðust tölurnar á greiddri húsaleigu þeirra sem sóttu um
verkamannabústaði.
Frá og með árinu 1977 er uppgjörsaðferðum breytt á þann veg að í stað þess að áætla leiguígildið út
frá markaðsleigu er nú reynt að áætla allan rekstrarkostnað íbúðarhúsnæðis, svo sem fasteignagjöld.
tryggingar, afskriftir og viðhald og rekstrarafgang að auki. Afskriftir eru áætlaðar 2,4% af þjóðarauðs-
mati en viðhald er áætlað 20% af leiguígildi. Rekstrarafgangur er áætlaður 3,5% af þjóðarauðsmati
íbúðarhúsnæðis á landinu. Samtala kostnaðar og rekstrarafgangs telst því brúttóleiguígildi frá árinu
1977. Þessar breyttu aðferðir valda ekki teljandi skekkju í mati á leiguígildinu.
Húsnæðiskostnaður á föstu verðlagi byggist á vísitöluaðferð þar sem ofantaldir kostnaðarliðir eru
hver um sig staðvirtir með mismunandi verðvísitölum.
Leiguígildi sumarhúsa er ekki meðtalið hér þótt að réttu lagi ætti að reikna það með á líkan hátt og
annað íbúðarhúsnæði.
3.2 Ljós og hiti.
Ekki liggja fyrir tölur frá orkusölufyrirtækjunum um skiptingu sölunnar milli heimila og
fyrirtækja. Útgjöld heimilanna verður því að áætla. Við áætlanir á kyndingarkostnaði íbúðarhúsnæðis
eru notaðar upplýsingar um skiptingu fólksfjölda eftir orkugjöfum sem Orkustofnun tekur saman.
Athuganir liggja fyrir um upphitað rúmmál á mann og orkuþörf mismunandi orkugjafa til upphitunar á
rúmmetra íbúðarhúsnæðis. Sú orka, sem þarf til að hita upp ákveðið húsnæði, er fundin með því að
margfalda saman upphitað rúmmál á mann, þá orku sem þarf til upphitunar þess húsrýmis á ári og
heildarmannfjölda eftir orkugjöfum.
Útgjöldin eru því næst fundin með því að margfalda orkutaxta (kr. á lítra af olíu, kr. á rúmmetra af
heitu vatni eða kr/kWh rafmagns) með orkuþörf í heild fyrir hverja tegund upphitunar. Olíustyrkur,
sem greiddur er af ríkissjóði til þeirra sem búa við upphitun með olíu, er ekki færður til frádráttar
útgjöldum hér heldur kemur hann sem tilfærsla til heimilanna samkvæmt reglum þjóðhagsreikninga.
Húshitun á breytilegu verði er staðvirt með þremur vísitölum, húshitunartaxta Hitaveitu
Reykjavíkur, verði gasolíu til húshitunar og húshitunartaxta RARIK.
Olíukynding á föstu verðlagi er hér sömuleiðis færð brúttó, þ.e. án olíustyrkja frá ríkissjóði.
Rafmagn til ljósa, eldunar og til annarrar heimilisnotkunar en upphitunar er einnig talið með í
þessum flokki. Orkustofnun tekur saman og birtir tölur um sölu á raforku til heimilisnota. Hér er notuð
uppgefin sala í fjárhæðum en upplýsingar liggja einnig fyrir um orkunotkunina í magni. Rafmagn til
heimilisnotkunar á föstu verðlagi er reiknað út frá breytilega verðlaginu og verðvísitölu rafmagnstaxta
samkvæmt tölum Orkustofnunar um selda orku í fjárhæðum og selt magn.
23