Einkaneysla 1957-1987 - 01.12.1989, Blaðsíða 50
árin er í ríkari mæli tekið mið af notkun eggja samkvæmt neyslukönnun Hagstofunnar, sem gerð var
1978-1979.
Tölur um neyslu á öli og gosdrykkjum byggjast á tvenns konar heimildum. Annars vegar er um að
ræða innlenda framleiðslu á öli og gosdrykkjum, sem upplýsingar fást um í skýrslum Hagstofunnar um
iðnaðarvöruframleiðsluna. Hins vegar er um að ræða innflutt öl og gosdrykki samkvæmt Verslunar-
skýrslum Hagstofunnar.
Hagstofa íslands tekur saman skýrslur um magn áfengis og tóbaks. Byggjast tölurnar á gögnum
Áfengis og tóbaksverslunar ríkisins. Hvað áfengisneyslu varðar er annars vegar um að ræða
samanlagða neyslu í lítrum og hins vegar reiknaða neyslu miðað við hreinan vínanda. Tóbaksnotkun
landsmanna er mæld í tonnum eða mille sem er alþjóðleg eining um tóbaksmagn þ.e.a.s. þúsund stykki
óháð vikt.
6.6.4 Neysla nokkurra fæðutegunda á mann 1957-1987.
Á grundvelli upplýsinga um meðalmannfjölda 1957-1987 og talna um heildarneyslu íslendinga á
nokkrum algengum fæðutegundun er unnt að meta magn neyslunnar á hvern íbúa 1957-1987. I töflu
1.15 eru sýnd dæmi um neyslu íslendinga á mann 1957-1987, er byggja á upplýsingum um heildarneyslu
í töflu 1.14 og meðalmannfjölda í töflu 1.11.
Fram kemur í töflunni að kjötneysla íslendinga er að jafnaði 72-76 kg. á mann á ári 1981-1987. Er
hér um að ræða nokkra aukningu frá því í upphafi tímabilsins er neyslan nam um 60-70 kg. á mann á ári.
Á sama tíma hefur fiskneysla landsmanna dregist saman og er nú aðeins um 42 kg. á mann á ári. Nemur
samdrátturinn 20-30 kg. á mann miðað við neysluna 1957-1966 þegar hún var mest.
Samdráttur hefur einnig orðið í neyslu á kartöflum úr um 70 kg. á mann í upphafi tímabilsins í um
50 kg. á mann á allrasíðustu árum. Neysla á smjöri og kaffi hefur nokkurn veginn staðið í stað en neysla
á eggjum hefur rúmlega tvöfaldast og nemur nú um 12 kg. á hvern íbúa á ári.
Neysla á mjólk hefur dregist saman um tæplega þriðjung 1957-1987. Árin 1957 -1967 nam neyslan
um eða yfir 300 lítrum á mann á ári en úr því fer að draga úr mjólkurneysiunni. Nemur neysla á mjólk
1987 208 lítrum á mann. Er þá meðtalin neysla á súrmjólk og jógúrt og mjólk til iðnaðar, nema
mjólkuriðnaðar.
Neysla á öli og gosdrykkjum hefur aftur á móti aukist mjög mikið 1957-1987. Ölneysla hefur
tæplega þrefaldast á þessum tíma úr 9 lítrum 1957 í 26 lítra 1987. Á sama tíma hefur neysla á gosi
tæplega sjöfaldast úr um 17 lítrum 1957 í um 118 lítra 1987.
Afengisneysla íslendinga hefur aukist töluvert 1957-1987. Mest hefur aukningin verið í neyslu á
léttum vínum en minni á sterkum drykkjum. Ef neysla áfengis er umreiknuð yfir í hreinan vínanda á
mann á ári kemur í ljós að neyslan hefur rúmlega tvöfaldast 1957-1987. Árið 1957 nam neyslan á
þennan mælikvarða 1.66 lítrum á mann en 3.44 lítrum 1987.
Tölur um tóbaksölu sýna að tóbaksneysla hefur aukist úr 1.3-1.6 kg. árin 1957-1960 í 3 kg. á mann
1970 en fer síðan lækkandi niður í um 2 kg. á mann 1978. Neyslan fer síðan vaxandi aftur og nemur 2.5
kg. á mann 1982. Hér er hins vegar um að ræða samanlagða notkun vindlinga, vindla, reyktóbaks,
neftóbaks og munntóbaks og miðað við vigt. Á seinni árum er farið að mæla tóbakssöluna í
stykkjafjölda og þá gjarnan miðað við mælieininguna mille, sem eru 1000 stykki.
Mjög mikil breyting hefur orðið á samsetningu tóbakssölunrtar á þessu þremur áratugum sem
tölurnar ná til. Mjög hefur t.d. dregið úr notkun neftóbaks og munntóbaks á þessum tímabili og einnig
notkun reyktóbaks síðari ár. Sala vindla hefur á hinn bóginn ekki dregist eins mikið saman. Sala á
vindlingum hefur aukist töluvert undanfarin ár eins og töflur 1.16 og 1.17 bera með sér. Á hvern íbúa
jókst sala vindlinga um tæplega 9% 1979-1987.
7. Einkaneysla í löndum OECD.
7.1 Inngangur.
Samanburður á einkaneyslu á íslandi og í öðrum löndum er forvitnilegur fyrir margra hluta sakir.
Hér má nefna spurningar eins og hversu mikið af tekjum einstaklinga og heilla þjóða er varið í
einkaneyslu og hvernig neyslan skiptist innbyrðis milli útgjaldaflokka.
48