Einkaneysla 1957-1987 - 01.12.1989, Blaðsíða 5
Formáli.
Þessi 7. skýrsla í ritröðinni um þjóðhagsreikninga fjallar um einkaneyslu á tímabilinu 1957-1987.
Þjóðhagsstofnun hefur ekki áður gefið út sérstaka skýrslu um þetta efni en hins vegar dregið saman
helstu niðurstöður og birt í ýmsum ritum stofnunarinnar. Meðal annars má benda á greinagerð og
töfluefni um einkaneysluna í þjóðhagsreikningaskýrslu nr. 4 sem kom út árið 1985. Af eldra efni má
vísa í grein Eiríku Önnu Friðriksdóttur hagfræðings, „Einkaneysla á íslandi 1957-1967“, sem birt var í
júní-desemberhefti Fjármálatíðinda árið 1970. í þessari skýrslu hafa hins vegar upplýsingar um
einkaneysluna, frá því skipulegar athuganir á henni hófust, verið samræmdar og dregnar saman á
einum stað.
Athuganir á einkaneyslu eru mikilvægur þáttur í þjóðhagsreikningagerð stofnunarinnar. Einka-
neysla er öll önnur kaup heimilanna á vöru og þjónustu en íbúðakaup og er hún um það bil 60%
landsframleiðslunnar. Þannig er einkaneyslan stór liður í ráðstöfun landsframleiðslunnar. Jafnframt
hafa íslenskir þjóðhagsreikningar fyrst og fremst verið gerðir upp frá ráðstöfunarhlið, en í þeirri aðferð
felst að meta þau verðmæti sem ráðstafað er til endanlegra nota, það er til einkaneyslu, samneyslu,
fjárfestingar og útflutnings.
Skipulegar athuganir á einkaneyslu ná aftur til þess tíma er grunnur var lagður að þjóðhagsreikn-
ingagerð hér á landi frá ráðstöfunarhlið. Fyrstu niðurstöður þessara rannsókna birtust árið 1961 í 10.
hefti rits Framkvæmdabanka íslands „Úr þjóðarbúskapnum“ en þar var gerð grein fyrir einkaneyslu á
árunum 1957-1958. Þessi skýrsla nær því til alls þess tíma sem samfelldar einkaneysluathuganir spanna.
Áhersla er lögð á samræmdar ogsamfelldar upplýsingar fyrir allt tímabilið. Rétt er því að vekja athygli
á að það efni, sem hér er birt, getur í einhverju verið frábrugðið áður birtu efni þar sem vinnuaðferðir
hafa breyst í tímans rás og betri heimildir fengist.
Skýrslan skiptist í átta kafla, auk töfluhluta og viðauka. Fyrsti kaflinn fjallar almennt um
þjóðhagsreikningagerð og samhengi einkaneyslunnar og annarra þjóðhagsstærða. í öðrum kafla er
einkaneysla skilgreind. í þriðja kafla er lýst heimildum og áætlunaraðferðum við uppgjör einkaneysl-
unnar. Jafnframt er gerð grein fyrir afnámi hámarksálagningar og áhrifum þess á vinnuaðferðir. Fjórði
kaflinn fjallar um verðlagningu á föstu verði, eða svonefnda staðvirðingu, og í því sambandi eru
sérstaklega skýrðar þær aðferðir sem notaðar eru við staðvirðingu, það er einingarverðsaðferð og
vísitöluaðferð. í fimmta kafla er í allítarlegu máli lýst aðferðum við mat á einstökum útgjaldaliðum
einkaneyslunnar og í þeim sjötta eru helstu niðurstöður dregnar saman. í sjöunda kafla skýrslunnar er
fjallað nokkuð um þjóðarframleiðslu í þeim löndum sem aðild eiga að Efnahags- og framfarastofnun-
inni, OECD og tekin dæmi um hlutfallslega skiptingu einkaneyslunnar í flestum aðildarlöndunum.
Loks er í áttunda kafla gerð grein fyrir tekju- og útgjaldareikningi heimilanna, sem er hluti af uppgjöri
þjóðhagsreikninga frá tekjuhlið.
Töfluhluti skýrslunnar skiptist í fimm flokka. Fyrst koma yfirlitstöflur ásamt töflum um neyslu
nokkurra vörutegunda og síðan sundurliðun einkaneyslunnar. Þá kemur samanburður við útgjöld í
vísitölu framfærslukostnaðar, yfirlit yfir nokkrar þjóðhagsstærðir sem hafa mikil áhrif á þróun
einkaneyslunnar og í síðasta töfluhlutanum er samanburður við önnur lönd. Að lokum eru þrír
viðaukar. Fyrst er heimildaskrá og hliðsjónarrit, þá ensk þýðing á töfluheitum og loks ensk þýðing á
helstu hugtökum.
Að þessari skýrslu hafa margir unnið á Þjóðhagsstofnun, en Gamalíel Sveinsson hafði umsjón með
gerð hennar og Tryggvi Eiríksson hafði með höndum söfnun gagna, úrvinnslu þeirra og textaskrif í
meginhluta skýrslunnar. Sigurður Snævarr skrifaði kafla 8 um tekju- og útgjaldareikning heimilanna.
Þjóðhagsstofnun í desember 1989
Þórður Friðjónsson