Læknablaðið - 15.02.2000, Blaðsíða 50
UMRÆÐA & FRÉTTIR / A F SJÓNARHÓLI STJÓRNAR
Sameining sjúkrahúsa og afstaða
eða afstöðuleysi lækna
Arnór
Víkingsson
ritari stjórnar Ll
Mikið hefur verið deilt um hvort heilbrigðis-
þjónustunni sé betur borgið með eitt eða tvö sjúkra-
hús í Reykjavík. En nú hefur heilbrigðisráðherra tek-
ið af skarið og ákveðið að stefna skuli að sameiningu
sjúkrahúsrekstrar Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykja-
víkur. Þessi ákvörðun heilbrigðisráðherra kom fáum
læknum á óvart. Skipun sameiginlegs forstjóra sjúkra-
húsanna fyrir tveimur árum og sameiginlegrar stjórn-
arnefndar nú nýverið boðaði aðeins eitt.
Því mætti ætla að forstöðulæknar sjúkrahúsanna
og læknasamtökin hafi þegar hafið undirbúnings-
vinnu að því hvernig skynsamlegt og raunhæft væri
að standa að slíkri sameiningu. Vissulega hafa lækna-
samtökin staðið fyrir umfjöllun um málið. Nefndir
hafa verið skipaðar og skilað áliti, málþing haldið og
á síðustu aðalfundum LÍ hefur iðulega verið fjallað
um þetta mikilvæga mál. Og hversu gagnleg hefur
þessi umræða verið? Mest hefur borið á tveimur and-
stæðum fylkingum sem hafa hreiðrað um sig í skot-
gröfunum og ekki hreyft sig þaðan. Litlar tilraunir
hafa verið gerðar til að nálgast hugmyndir hins aðil-
ans eða finna nýja lausn á þessu flókna máli. Helsti
afrakstur þessarar umræðu eru tvö virðuleg nýyrði í
orðasafn læknisfræðinnar: „Hátæknisjúkrahús“ og
„Háskólasjúkrahús". Fylkingarnar tvær hafa séð
snertiflöt á deilumáli sínu sem felst í því að byggja
splunkunýjan spítala þar sem læknar í tæknivæddum
sérgreinum annars vegar og vísindamenn hins vegar
fá óskir sínar um fullnægjandi vinnuaðstöðu uppfyllt-
ar. En þó að augljóslega yrði það heilbrigðisþjónustu
í landinu til framdráttar að byggja hátækni háskóla-
sjúkrahús þá virðist tæpast raunhæft að ætla að slíkur
spítali rísi á næstu árum. Og jafnvel þó svo yrði hefur
oftast verið talið óráðlegt í vestrænum samfélögum
að hjónaefni hefji samvinnu sína í bólinu; frekar hef-
ur tíðkast og eðlilegra þótt að hjónaefnin kynntust
fyrst, aðlöguðust hvort öðru og reyndu að sníða
verstu gallana af makanum tilvonandi.
í umræðunni um eitt eða tvö sjúkrahús hefur mér
þótt gleymast að ræða um mikilvægi þess að auka
samvinnu sjúkrahúsanna tveggja. Vissulega er víða
mikil og góð samvinna í gangi og flaggskip hennar er
sennilega hin ágæta starfsemi öldrunardeilda sjúkra-
húsanna. Eg er hins vegar sannfærður um að hægt sé
að stórauka samvinnu sjúkrahúsanna og að það hljóti
að vera fyrsta skrefið í átt að aukinni hagræðingu og
bættri þjónustu, hvort sem það leiðir til samruna
sjúkrahúsanna eða ekki.
Til að samvinnuferlið heppnist þurfa allir læknar
sjúkrahúsanna að taka þátt í því af jákvæðni, þori og
vilja. Þeir þurfa að losna úr viðjum hefðbundins hugs-
unarháttar þar sem allt stjómast um of af áþreifan-
legum landamærum (húsveggjum, lóðamörkum) og
fjarlægðum. Skoða þarf hvort heppilegt sé að flytja
ákveðna starfsemi alfarið yfir á annað sjúkrahúsið
eða hvort æskilegra sé að halda starfseminni að-
skilinni. Sé síðari kosturinn valinn er mikilvægt að
auka samvinnu deildanna, til dæmis með sameigin-
legum ferilvöktum og einnig með því að læknar vinni
að einhverju leyti á báðum sjúkrahúsunum. Mikil-
vægt er að í þessu ferli verði annað sjúkrahúsið eða
ákveðnar deildir innan þess ekki gerðar að annars
flokks þjónustudeild sem auk þess að bitna á sjúk-
lingunum myndi lækka faglegan staðal sérfræðilækn-
anna sem vinna við deildina. Endurskoða þarf ræki-
lega ráðgjafarþjónustu sérfræðilækna, gera hana skil-
virkari og óháða landamærum sjúkrahúsanna, sér-
staklega í sérgreinum þar sem mikið misvægi er í
mönnun á sjúkrahúsunum tveimur.
Ég vona að læknar beri gæfu til að vinna heiðar-
lega og vel úr núverandi stöðu. Þrátefli síðustu ára
verður að heyra sögunni til. Ráðherra hefur tekið
ákvörðun um sameiginlegan rekstur sjúkrahúsanna
og það er undir læknunum sjálfum komið að finna
réttu leikfléttuna til sigurs. Annars verðum við enn
einu sinni heimaskítsmát.
126
Læknablaðið 2000/86