Tímarit Máls og menningar - 01.11.1964, Page 91
En það væri einnig lítill vandi að leggja
fram lista með nöfnum öndvegisrita ann-
arra menningarheilda, sem ekki eru síður
líkleg til að geta haft heillavænleg áhrif á
íslenzka menningu. Er það gjörsamlega
ótækt, að ekki skuli unnið skipulega að
þýðingum slíkra verka. Ætti það að vera
meginhlutverk Menningarsjóðs, auk hand-
bókaútgáfu, að sjá landsmönnum og þá
ekki sízt uppvaxandi æsku fyrir þvílíku sí-
gildu lestrarefni í vönduðum þýðingum.
J. Ó. segir í formála sínum, að hann
harmi að geta ekki miðlað því seiðmagni,
sem verk nefndra skálda búi yfir á frum-
málinu. í merkri bók, „Philosophy in a
New Key“, ræðir höfundurinn, Susanne
Langer, m. a. hversu vonlaust sé að þýða
ljóð fullkomlega. Hið eina, sem þýðandi
geti gert sér vonir um að koma fyllilega til
skila af frumljóðinu, sé „beinagrind" þess,
„sagan“, sá hluti sem má endursegja í ó-
bundinni frásögn. En allt það sem í raun
geri IjóSið, hljómur orðanna og hrynjandi,
hárfín blæbrigði og merkingatengsl, sam-
spil þess innbyrðis og við „söguna“, ef
einhver er, þetta allt sé einstakt og aðeins
tilteknu ljóði tilheyrandi, verði hvorki frá
því losað sé eftirlíkt. Þó sé einn vegur fær,
sem þó sé ekki vegur málamiðlunar, heldur
nýr vegur: snjall þýðandi á þess kost að
klæða „beinagrind" ljóðsins á sinn hátt,
skapa nýtt listaverk, sem einnig sé einstakt,
fá fram ný tilbrigði við sama stef. Þessa
leið hafa ýmsir af snjöllustu Ijóðþýðend-
um okkar valið og farið með sóma, nægir
þar að nefna þá Sveinbjörn Egilsson,
Magnús Asgeirsson og Helga Hálfdanarson.
En nú mun mála sannast, að beita verði
þessari þýðingaraðferð hófsamlega við þau
ljóð, sem þegið hafa af þróun nútímaljóð-
listar allar götur frá Rimbaud. Myrkur í
ljóði, eitt megineinkenni þeirrar þróunar,
krefst sérstakrar aðgætni þýðanda, gerir
honum óbægara að víkja frá bókstafnum af
Umsagnir um bœkur
ótta við mistúlkun. Árangurinn af slíku
þýðingarstarfi er oft næsta rýr, sneyddur
anda og innlifun. Furðu margar íslenzkar
þýðingar erlendra nútímaljóða eru Htið
meira en hrá yfirfærsla bókstafsins, í senn
óíslenzkulegar og andlausar.
Það er rétt hjá Jóni Óskari, að þýðingar
hans miðla vart seiðmagni frumljóðanna,
sem eru sum hver meginverk í franskri
seinni tíma ljóðlist. Þó eiga þýðingar hans
almennt ekki skilið að kallast bókstafsþýð-
ingar og sumar fjarri því, t. d. kaflinn úr
Söngvum Maldorors. Stirðlegastar þykja
mér þýðingar hans úr Ijóðum St. John
Perse, enda er hann tvímælalaust torveld-
astur viðureignar af þeim skáldum, sem Jón
þýðir eftir. Jóni eru erfiðleikarnir mæta vel
ljósir, sbr. orð hans í formála: „Eflaust
mun lesendum þykja Perse (ásamt Rim-
baud) einna torræðastur af þeim skáldum
sem hér er leitazt við að kynna. En við
skulum minnast þess, að margt sem er tor-
kennilegt og jafnvel afskræmilegt við fyrstu
sýn getur orðið aðlaðandi og heillandi,
þegar betur er skoðað. Skýringar á skáld-
skap eru jafnan hæpnar, nema þær skýring-
ar sem hver á fyrir sjálfan sig, og oft hafa
þær leitt menn út á villigötur. Eg ætla ekki
heldur að útskýra ljóð Perse ...“ Torræðni
Perse veldur því, að J. Ó. heldur sér þar
framar venju í bókstafinn, en skeytir minna
um hljóm og stíl. En einmitt í skáldskap
Perse eru hljómur og merking óaðskiljan-
leg og styðja hvort annað í svo ríkum mæli,
að þau hlíta ekki lengur sínum venjulegu
takmörkunum. Ljóð hans virðast skapast og
vaxa fyrir augum lesandans, „hjá honum
skapar málið listaverkið, og listaverkið vex
af málinu" (Wallace Fowlie). Þýðing Jóns
á Broti úr fyrsta þætti Austurfarar sýnir
samt, að hann kann einnig að þjóna þeirri
grandeur orðsins, sem gefur verkum Perse
sínar kosmísku dímensjónir.
J. 0. þýðir fimm prósaljóð eftir Baude-
297