Tímarit Máls og menningar - 01.09.1978, Page 65
GuSbergsk siðbót
Uppruni þessara tveggja goðsagnagerða er að vísu ólíkur. Grikkir bjuggu
sínar goðsögur til „sjálfir“ til að koma röklegu kerfi yfir óskipulegan og
oft óskiljanlegan veruleika sinn; nútímagoðsagnir í þessu tilviki eru hins
vegar þær falshugmyndir um veruleika mannsins í þjóðfélagi kapítalism-
ans sem valdastéttirnar hafa mótað til að treysta sig í sessi og hindra fólk
í að öðlast réttan skilning á eðli stéttaþjóðfélagsins. En bæði þessi kerfi eiga
það sammerkt að vera afvegaleiðandi og breiða yfir eiginlegar afstæður. Og
á sama hátt og gríska goðafræðin leið undir lok sem hugmyndakerfi með
því að mennirnir náðu stjórn á náttúrunni, þá vinnur nútímamaðurinn
ekki sigur á hugmyndafræðinni fyrr en hann hefur skilið eðli stéttaþjóð-
félagsins og þar með séð í gegnum blekkingarvef goðsagna þess.
Eg tel Guðberg Bergsson tvímælalaust afhjúpandi höfund. I umfjöllun
þeirri á Astum samlyndra hjóna sem hér fer á eftir þessum klaufalegu að-
faraorðum mun ég reyna að skýra hvaða goðsögur höfundur afhjúpar og
með hvaða hætti. En áður en ég vík að því beinlínis, tel ég nauðsynlegt
að fjalla sérstaklega um tengikafla bókarinnar og upphafskafla hennar,
þar sem líta má á hann sem stefnuyfirlýsingu höfundar. I því sambandi
leyfi ég mér að vísa á stöku stað til annarra verka Guðbergs.
2. SÖGUMAÐUR — STEFNUYFIRLÝSING HÖFUNDAR
2.1. Tengikaflar hókar'mnar — sögumaður
Undirfyrirsögn bókarinnar er „tólf tengd atriði“. Tengiliðir atriðanna
eru feitletraðir kaflar, þar sem tveir menn ræðast við, eða öllu heldur er
um að ræða tvíklofinn mann, skáldið Hermann-Svan, sem talar við sjálfan
sig. Það upplýsist í næstsíðasta kaflanum:
Hann lá hjá katlinum og horfði í spegilgljáandi kúpuna. Höfuð hans valt
til hliðar. Mynd hans teygðist unz andlitið slitnaði í tvennt. Um það er ekki
að ræða, hugsaði hann, öðru megin andlits Svans, hinum megin á kúpunni
er andlit Hermanns. (235)
Formlega séð er það þetta tvíklofna skáld sem segir sögurnar tólf. Ástæð-
una fyrir því að segja sögur lætur hann upp í einum tengikaflanna:
En þú andvarpar feginn því að geta sýnt hvernig allir eru skepnur, hugsaði
hann.
283