Tímarit Máls og menningar - 01.11.1980, Blaðsíða 108
Tímarit Má/s og menningar
Helsta nýjungin í Hliðin á sléttunni eru prósaljóðin. Telja má þau eðlilegt
framhald fyrri skáldskapar Stefáns Harðar, þvi hinn orðfái og merkingarþrungni
stíll hans fellur mjög vel að hinni knöppu samfellu prósaljóðsins, þar sem
gengið er nær óbundnu máli en í öðrum ljóðum.
Efnislega er Hliðin á sléttunni frábrugðin Svartálfadansi að því leyti að þar eru
margskonar heimspekilegar vangaveltur og umræða meira áberandi, og beitt er
djúptækri heimspekilegri hugsun til að túlka hin margvíslegu afstæðumynstur
og vandamál tilverunnar.
Ljóðið Flugmundir 81, sem er fyrsta ljóð bókarinnar, er gott dæmi um
hvernig skáldið býr til mynd með því að tengja saman setningar af ólíkum
merkingarsviðum, sem hver um sig myndar ákveðna myndræna heild, en þegar
þessar setningar, sem eru án röktengsla, koma saman í heild ljóðsins, verða þær
að sérstakri mynd sem gerð er af hinum mismunandi skynsviðum:
Það er sumarið
sem málar bláar vindskeiðar
á dagsbrúnina.
Því verður ekki neitað.
Lúðurinn breytir um hljóm
þegar haustar á fjöllum.
Syngdu fugl.
Hann krýndi vindinn blómum
og þau hafa angað
síðan hún fann þau.
Syngdu fugl
syngdu nótt af vegum.
í fyrsta erindinu er náttúrulýsing þar sem litir og sjónræn lýsing er notuð sem
uppistaða myndarinnar. Náttúrufyrirbæri eins og sumarið er persónugert, það
„málar bláar vindskeiðar á dagsbrúnina“. Hversdagslegir hlutir, „bláar vind-
skeiðar", eru tengdar við „dagsbrúnina", þannig að hinar vanabundnu líkingar
daglegs máls eru settar fram í nýju ljósi, sem kallar fram hina tvöföldu merkingu
orðanna, hina bókstaflegu og þá yfirfærðu.
í öðru erindinu er höfðað til heyrnar í báðum setningunum og þar með er
myndin víkkuð og gædd hljómi. í þriðja erindi er vísað til ilmskyns og þar er
362