Tímarit Máls og menningar - 01.11.1980, Blaðsíða 125
,,Hverju reiddust goðin?“
önnur fyrirbæri daglegs lífs lifðu sem lofgjörðarefni, svo í vitund þeirra, sem
orktu, sem hinna, er nutu þess i söng sem hlýðendur. Þórsnesingar áttu sína
drauma um framhaldstilveru í Helgafelli, en Kristján Fjallaskáld óskaði sér
svefns í örmum Dettifoss við aldurtila. Sjálfsagt liggur hvergi fyrir úttekt á þvi,
hvert hlutfall ættjarðarljóða muni vera i þeim kveðskap, sem lifír á tungu
þjóðarinnar, í samanburði við það, sem gerist með öðrum bókmenntaþjóðum.
Mér þætti líklegt, að í þeim samanburði kynni það að leynast, sem ekki bæri að
sniðganga í sambandi við séríslenskt hugarþel. Meðal náinna samborgara í
umhverfinu voru ekki aðeins vandamenn og vinir, forsjármenn og skjól-
stæðingar, heldur líka smalarnir á næstu bæjum, allir þeir, sem börðust sömu
baráttunni og við. Og þætti okkur mannheimurinn fullfátæklegur, þá drápum
við að ósýnilegum dyrum í hóli við bæjarlækinn eða steini í túnjaðrinum,
fundum þar fyrir fólk í skrautklæðum, sem við fegurst áttum i draumum okkar.
Þar urðu mök okkar nánust við yfirskynvitlega heima. Konur hóla og steina og
mannheima skiptust á aðstoð við erfiðar fæðingar, einnig ef hungurvofan barði
að dyrum. Og milli þessara tveggja heima var meira að segja skipst á kyn-
mökum, og minnir sú lífsreynsla þannig á frásagnir ekki ómerkilegra rits en
sjálfs nýjatestamentisins. Og í öllum heimum lífs okkar, innan og utan okkar
efnislega skynheims, ríkti jafnréttið í óvenjulega ríkum mæli, hver var upp á
annars náðir kominn, við vorum brot af bergi sameiginlegrar ættjarðar og blik af
draumum hennar. Guð var ekki utangarðs í því samfélagi. Því var hægt að tala
við hann rétt eins og hvern annan, leita til hans hjálpar, þegar hættu bar að
höndum, og segja honum afdráttarlaust til syndanna, þegar ástæða þótti til, að
dæmi Egils Skallagrímssonar, Bólu-Hjálmars og Kristrúnar í Hamravík.
379