Tímarit Máls og menningar - 01.11.1980, Blaðsíða 85
Bara Una hin góða
Það gat Una ómögulega skilið.
— Jú sjáðu til, sagði yfirmaður allrar heilsugæslu. Þú hefur fundið
upp aðferð til að fá sjúklingana til að horfast í augu við stöðu sína og
þarmeð að sætta sig við dauðann. Þeir sjá réttilega að þeir eru ekki neitt
neitt lengur og láta þá undan eðlilegum ágangi tímans og deyja sælir.
Frammað þessu hafa 82% allra sjúklinga dáið óánægðir, aðeins misjafn-
lega fullir gremju og mótþróa. Ef hægt væri að þróa aðferð þína og
sérmennta nógu marga í henni, mætti lækka þessa tölu niðurí svosem
einsog 5 — 10%. Það væri mikill sigur. Hitt væri þó enn meira um vert ef
hægt væri að gera aðferð þína að samfélagslegri reglu öllum Borgarbúum
til heilla.
Hér þurfti yfirmaður allrar heilsugæslu að hella sér vatni í glas áðuren
hann hélt áfram af yfirvegaðri sannfæringu hins reynda hugsjónamanns:
— Hvað stendur Borginni okkar helst fyrir þrifum? Óánægja, gremja og
mótþrói einstaklinga með brenglaða sjálfsmynd, fólks sem hefur allt á
hornum sér af því það heldur að það sé eitthvað miklu meira en það er,
fólks sem krefst alls af Borginni okkar en vill ekkert láta í staðinn, síst af
öllu ánægju sína og þakklæti. Hingaðtil hafa yfirvöldin, studd af hinum
skilningsríka meirihluta, brugðist við þessu fólki á hæpinn hátt með
hæpnum aðferðum, semsé festu og áræðni, jafnvel hörku þegar þess hefur
verið talin þörf. Árangurinn hefur oftast verið lítill, stundum gagnstæður
við það sem ætlast var til. Þeir óánægðu eru nú fleiri og óánægðari en
nokkru sinni fyrr. Borgin okkar er í hættu. Þú ein getur bjargað henni.
— Eg? sagði Una heldur en ekki undrandi.
— Þú. Eða réttara sagt gæskurík aðferð þín sem við höfum ekki ennþá
getað rannsakað til fulls. Þessvegna biðjum við þig lengstra orða að hætta
ekki strax.
— Er gæska mín þá afl til að . . .
— Til að gera fólk að betra fólki, flýtti yfirlæknirinn sér að grípa
frammí. Sá einn er á réttri leið sem gerir sér grein fyrir því hvað hann er og
sættir sig við það.
— Öll erum við ósköp lítil, sagði yfirmaður allrar heilsugæslu. Aðeins
saman í sátt og eindrægni getum við verið stór.
Þrátt fyrir þessi sterku rök sem Una treysti sér ekki til að mæla gegn,
339