Tímarit Máls og menningar - 01.11.1980, Blaðsíða 148
Tímarit Máls og menningar
tók hann að draga í land og leikararnir sem unnu með honum hafa borið að
kenningar hans hafi sjaldan eða aldrei verið ræddar í leikhúsinu. Hann var
tregur til að ræða þær við gesti leikhússins og varaði þá jafnvel við að taka þær of
hátíðlega. I skrifum sínum um list leikarans hafði hann rætt um nauðsyn þess að
leikarinn sýndi persónuna í gagnrýnu ljósi og reyndi ekki að lokka áhorfandann
til innlifunar, en nú sagði hann að leikari sem gæti ekki skapað lifandi og
trúverðugar persónur mundi verða yfirborðsmennsku og tilgerð að bráð. Og í
samræðum við nokkra námsmenn árið 1954 játar hann hreinskilnislega að
vísindalegt leikhús, leikhús sem hafi þann megintilgang að skerpa gagnrýna
hugsun áhorfandans, sé óhugsandi, a. m. k. nú á tímum, af því að hinn vís-
indalegi áhorfandi, sem sé forsenda þess, sé ekki til. „Við getum enn ekki gert
ráð fýrir því að vísindaleg hugsun veiti mönnum sanna skemmtun," segir hann
og setur um leið ákveðið skemmti- og listgildi leikhússins ofar uppeldisgildi
þess. „Menn mega ekki halda,“ segir hann, „að það hafi verið ætlunin að
framkvæma einhverja mjög fastmótaða hugmynd um leikhús, hvað sem það
kostaði. Það hefur einungis verið komið með nokkrar uppástungur, tillögur að
fáeinum breytingum, aðferðum, vinnuháttum, ekkert annað.“ Þetta yfirlætis-
leysi stingur mjög í stúf við spámannstóninn sem er í flestu því sem Brecht
skrifaði á yngri árum um leikhús framtíðarinnar, sem hann þóttist vera að leggja
grundvöll að. En hann tók kenningar sínar aldrei opinberlega aftur og þess
vegna hafa ýmsir glapist á að taka þær fyrir góða og gilda vöru. Sagt er þó að
hann hafi á síðustu árum sínum verið með nýja kenningu í smíðum sem hafi átt
að koma í stað kenningarinnar um epískt leikhús. Honum entist þó ekki aldur
til að setja hana fram.
Forsendan fyrir listrænum sigrum Brechts á síðustu árum hans var því ekki sú
metnaðarmikla kenning sem hann hafði búið til, heldur miklu fremur raunsæi
hans gagnvart þeim skilyrðum sem hann varð að starfa við. Austurþýsk stjórn-
völd sýndu honum mikla rausn þegar þau færðu honum heilt leikhús að gjöf, en
þau gátu aldrei fært honum þá sjálfstæðu og skapandi áhorfendur sem hann
byggði fagurfræði sína á. Ríki þeirra hefði beinlínis verið í bráðum voða, hefðu
þegnar þess verið fólk af þessu tagi, og því gat vísindalegt leikhús Brechts ekki
átt þar nokkra heimvist. En Brecht var of frjór til að þurfa á gömlum hug-
myndum sínum að halda til þess að geta sagt það sem honum bjó í brjósti. Hann
hugsaði margt sem ekki var í sem bestu samræmi við þann ríkisskipaða stóra-
sannleik sem hann játaði í orði, og það merkilega er að honum tókst að koma
þessum forboðnu hugsunum og tilfinningum til skila. Undir niðri hneigðist
Brecht nefnilega enn til sömu efahyggju og svartsýni og var ríkjandi í æsku-
402