Tímarit Máls og menningar - 01.11.1980, Blaðsíða 144
Tímarit Máls og menningar
sínum. En að sjálfsögðu þurfti enginn að fara í grafgötur með hvor hefði
undirtökin.
Fyrstu sýningum Berliner Ensemble var á heildina litið vel tekið. Að vísu bar
nokkuð á því að listrænar aðferðir leikhússins, sem voru ólíkar flestu því sem
fólk átti að venjast og gerðu auk þess óvenju miklar kröfur til glöggskyggni
áhorfenda, yllu misskilningi, og mörgum þóttu mannlífsmyndirnar í þessu
leikhúsi alldökkar og ekki sérlega uppörvandi fyrir alþýðuna. Vitaskuld var
ætlast til þess að Berliner Ensemble legði sitt af mörkum til uppbyggingar
sósíalismans eins og aðrar listastofnanir, en ýmsir háttsettir embættismenn áttu
þó erfitt með að koma auga á áróðursgildi leiksýninga þess. Brecht var t. d.
átalinn fyrir það að láta Mutter Courage, sölukonuna sem framfleytir sér á því að
selja hermönnum í þrjátíu ára stríðinu varning og missir að lokum öll börn sín
i hít ófriðarins, ekki iðrast framferðis síns í lokin og verða áhorfendum til
eftirbreytni með því að gerast virkur friðarsinni. Lokaatriðið i sýningu Brechts,
þegar Mutter dregur vagn sinn ein af stað án þess að hafa nokkuð lært af
mistökunum — eins og Brecht sagðist túlka það —, er sagt hafa verið með
afbrigðum áhrifamikið og Brecht svaraði gagnrýninni þannig að hann teldi
nægjanlegt að áhorfendur tækju afstöðu gegn stríði eftir að hafa horft á leikinn;
það væri óþarfi að láta Mutter ganga á undan með góðu fordæmi. En það er
ósennilegt að fulltrúar flokksins hafi gert sig ánægða með slík svör og trúlega
hafa þeir haft gildar ástæður til þess. Af ýmsu sem var skrifað um sýninguna má
ráða að endalok og örlög Mutter Courage hafi vel mátt túlka sem almenna
dæmisögu um vangetu mannsins til að læra af reynslunni og taka stakka-
skiptum. Slík túlkun er að sjálfsögðu i næsta litlu samræmi við kenningar
Brechts og opinberar yfirlýsingar, en það er engu að síður ekki ólíklegt að úr
sýningum hans, og raunar ljóðum líka, hafi mátt lesa sitthvað sem ekki kom
heim og saman við hina opinberu mynd af lífi manna og framtíð í lýðveldi
alþýðunnar. I listinni fann Brecht leið til að segja, eða öllu heldur gefa í skyn,
hug sinn og tilfinningar gagnvart því sem var að gerast umhverfis hann. Og þó
að hann vonaðist til að mannkynið mundi smám saman finna rétta leið úr böli
styrjalda og kúgunar, var hann nógu raunsær til að gera einnig ráð fyrir því
versta.
Árið 1951 harðnaði pólirískt andrúmsloft í Þýska alþýðulýðveldinu og þá
slær í fyrsta skipti í alvarlega brýnu með Brecht og stjórnvöldum, að því er
heimildir minar herma. I marsmánuði það ár frumsýndi austurþýska ríkisóperan
óperuna Dómurinn yfir Lúkullusi, sem var byggð á gömlu útvarpsleikriti eftir
Brecht og Paul Dessau hafði gert tónlist við hana. Þarna segir frá því þegar
398