Tímarit Máls og menningar - 01.11.1980, Blaðsíða 51
Hringurinn
Þótt hvorugt þeirra liti af andliti hins, greindi hún, líkt og með öðru
skilningarviti að lundurinn græni hafði breyst í villidýrsbæli síðan seinast.
Skógarsvörðurinn var traðkaður, þar voru pokar í náttbóli og nöguð bein
eftir máltíð, og hér hlaut að hafa verið kveiktur eldur að nóttu, því að um
svörðinn allan var aska og kulnuð viðarkol.
Eftir stundarbil varð henni ljóst að sá sem hún einblíndi á grandskoð-
aði hana á sama hátt. Þessi andartök var hann ekki eitt saman villidýr á
flótta, einn gegn öllum, loksins fundinn og við öllu búinn, — hann virti
hana fyrir sér. Um leið og henni varð þetta ljóst, sá hún sjálfa sig augum
hans, veruna hvítklæddu sem nálgaðist hægfara og hljóðlát og gat verið
dauðinn.
Loks hreyfði hann sig. An þess að lyfta handleggnum sneri hann hægri
úlnlið sínum stillilega og hnífnum í hægri hendi upp á við svo að
oddurinn á hnífsblaðinu vissi beint að barka hennar. Hreyfmgin var
fráleit, óskiljanleg. Hann brosti ekki meðan hann hreyfði höndina en
nasir hans og munnvik titruðu. Síðan vék hann hendinni jafn hæglátlega
í fyrra horf og þrýsti hnífnum í slíðrið við belti sitt.
Hún hafði ekki með sér neinn skartgrip eða neitt dýrmæti nema
giftingarhringinn sem bóndinn hafði dregið á fingur henni fyrir framan
altarið viku áður. Hún dró hann af fingri sér og missti um leið vasaklút-
inn á jörðina. Hún rétti honum höndina og hringinn.
Hún var ekki að biðja sér lífs eða semja um það. Hún var ókvalráð að
eðlisfari og skelfingin sem gagntók hana var ekki tengd neinni umhugs-
un um það hvað hann gæti gert henni. Hún skipaði honum, hún særði
hann að viðlögðum hringnum í hendi sér, að hverfa eins og hann hafði
birst, — uppræta ógn úr lífi hennar, svo að skelfinguna yrði aldrei, aldrei
framar að finna. Þessi þögla hreyfing færði hvítklæddu ungu verunni
sama alvöruþrungna myndugleik og presti er gefinn, er hann rekur brott
illan anda með helgu tákni og kveður hann niður úr mannheimi, í
myrkur.
Hann teygði hönd sína varlega að hennar, fingurgómar hans snurtu
fingurgóma hennar, og fingur hennar titruðu ekki við snertinguna. En
hann tók ekki hringinn. Um leið og hann sleppti féll hringurinn til jarðar
eins og vasaklúturinn áður.
TMM 20
305