Tímarit Máls og menningar - 01.11.1980, Blaðsíða 17
A alþjóðlegri kvennaráðstefnu
rutt úr vegi og ég stóð með öll mín skjöl í höndum. Flugvélin átti að fara kl. 9
næsta morgun.
Rétt þegar ég var að stíga upp í flugvélina kom kona og gaf sig á tal við mig.
Hún kynnti sig og sagðist vera frá innanríkisráðuneytinu.
„Jæja frú, svo að þér fenguð vegabréfið yðar? Það gleður mig sannarlega. Þér
eigið það vissulega skilið. Bara að ég gæti breytt mér í fugl og flogið með yður
til Mexíkó!“
En að lokum lækkaði hún röddina og hvíslaði, leyndardómsfull á svipinn:
„Frú, þér verðið að gæta vel að orðum yðar þarna fyrir handan, því á þeim getur
oltið hvort yður verður leyft að koma hingað aftur. Svo þér skuluð láta vera að
tala um suma hluti. . . hugsið vel áður en þér talið. Og umfram allt verðið þér
að hugsa til barnanna yðar sem þér skiljið hér eftir. Ég er bara að gefa yður góð
ráð . .. Svo óska ég yður innilega góðrar ferðar.“
Þegar ég hugsaði um ábyrgð mína, í senn sem móðir og verkalýðsforingi,
fannst mér allt í einu að verkefni mitt í Mexíkó væri næstum ofraun. Mér fannst
ég milli steins og sleggju. En ég var samt staðráðin í að bregðast ekki félögum
mínum, körlum og konum, né því verkefni sem þau höfðu falið mér.
Við flugum frá La Paz til Lima, síðan til Bogota og loks til Mexíkó.
Meðan á ferðinni stóð sat ég og hugsaði margt. Eg hugsaði um að aldrei hefði
mig dreymt um að ferðast með flugvél, og alls ekki til svo fjarlægs lands sem
Mexíkó. Stundum vorum við svo fátæk að við áttum ekki matarbita — bara
hugsunin um að ferðast innan lands hefði verið fráleit. Ég minntist þess að ég
hafði alltaf óskað þess að kynnast mínu eigin landi, hverju héraði, hverri sveit,
og hér sat ég nú á leiðinni til fjarlægs, ókunnugs lands. Ég varð djúpt snortin,
bæði glöð og angurvær í senn. Hvað ég vildi óska að félagar mínir heima hefðu
átt kost á slíku!
Um borð í flugvélinni töluðu allir einhver erlend mál, þau töluðu og hlógu,
drukku, spiluðu á spil. Ég gat ekki talað við neitt þeirra. Mér fannst ég vera
ósýnileg. Þegar við millilentum í Bogota kom kona frá Uruguay um borð, hún
var líka á leið á kvennaráðstefnuna. Þá hafði ég loksins einhvern að tala við.
Þegar við komum til Mexíkó tóku á móti okkur skarar af ungu fólki sem
virtist geta talað öll mál. Þeir spurðu hverjir af farþegunum væru á leið á
kvennaársráðstefnuna, sáu um að koma okkur í gegnum tollinn og vísuðu
okkur á hótel sem ég flutti strax inn á.
Eg vissi þegar af frásögn blaða í Bólivíu að Kvennaársráðstefnan væri í
tvennu lagi, opinber ráðstefna, sem var fyrir fulltrúa ríkisstjórnanna og óopinber
ráðstefna þar sem þátt tóku fulltrúar frá öðrum stofnunum og samtökum.
271