Tímarit Máls og menningar - 01.04.1989, Síða 17
Adrepur
með röksemdafærslu, þá er ekki þar með sagt að fundin sé frumgerð og því síð-
ur einn höfundur að baki hennar. Vandi textafræðingsins eykst og við það hve
lítið er vitað um hugmyndir fornra sagnaritara um byggingu verka og stíl. End-
urgerð stofnrits á grundvelli handritarannsókna getur því reynst torveld og
stundum hæpin. Hún er raunar einkennileg þessi dýrkun hins upprunalega,
þeirrar frumgerðar sem nú er löngu týnd, og hún gengur þvert á hugmyndir
miðaldamanna um vinnulag og sköpun; þeir ágætu rithöfundar sóttust ekki eft-
ir frumleika og fléttuðu ekki frásögn sína á sama hátt og margir nútímahöfund-
ar. Textarnir breyttust því í eftirritum, lengdust eða styttust, og „hinn fyrsti
texti“ vék fyrir nýjum texta á nýjum tíma.
Við útgáfu okkar á íslendinga sögum og þáttum höfum við fært okkur í nyt
nýjustu útgáfur textafræðinga, rit og ritgerðir um þessar bókmenntir, leitað
ráða hjá sérfræðingum og borið vafasama staði saman við handrit. Við reynd-
um þó að forðast að prenta endurgerðan „frumtexta" eins og víða er gert, t.d. í
IF, af því að við erum þeirrar skoðunar að ekki sé unnt að endurgera hann
heldur verði að sætta sig við þann texta sem varðveittur er í svokölluðum eftir-
ritum. Við prentum stundum margar textagerðir sömu sögu eða þáttar og að
því leyti er útgáfan frábrugðin flestum öðrum lestrarútgáfum. Og þótt traustar
textaútgáfur séu vissulega undirstaða allrar túlkunar má ekki gleyma því að ný
bókmenntatúlkun getur breytt afstöðunni til textans: þá verður nauðsynlegt að
gefa hann út að nýju.
Það er því ekki alls kostar rétt hjá EGP að útgáfa Sáh sé „endurprentun
texta, sem hafa verið gefnir út eða unnir áður“ (406) og vonandi ofmælt hjá
GN að útgáfa okkar á Sturlungu og fleiri textum bæti „engu við fyrri útgáfur
sögunnar“ (414) hvað varðar þann texta sem við prentum. Hún er þeirrar skoð-
unar að ný útgáfa bæti litlu við fyrri útgáfur „nema gerðar séu nákvæmar rann-
sóknir á handritumsögunnar.“ (412) Því er til að svara að sá texti sem við prent-
um er mjög víða annar en texti þeirra sem áður hafa gefið safnið út vegna þess
að við bárum vafasama staði og raunar marga kafla þess við handrit eins og frá
er greint í formála útgáfunnar. Okkur er fullljóst að textarannsókn á eftirritum
Reykjarfjarðarbókar hefði orðið okkur til mikils gagns, en slík rannsókn er
margra ára starf. Aftur á móti erum við ekki viss um að texti Reykjarfjarðar-
bókar breytti hugmyndum manna um Sturlungusafnið og útgáfu þess í lestrar-
útgáfu. Og við erum sannfærð um að útgáfa okkar á Sturlungu opnar mörgum
lesendum leið að þessu margslungna og heillandi verki.
Svo virðist sem EMJ hafi lesið sér til um rannsóknir fræðimanna á handritum
Njálu, einkum þó ritgerðir Einars Ól. Sveinssonar (EÓS) um efnið. Þetta er
lofsvert framtak og gætu samviskusamir ritdómarar tekið hann sér til fyrir-
myndar. Gallinn er bara sá að endursögn EMJ villir lesandann af réttri leið, þar
sem hann rekur ekki þær röksemdir sem textafræðin byggist á og drepið var á
hér að ofan. Hann segir með réttu að Konráð Gíslason (KG) hafi rómantískan
143