Tímarit Máls og menningar - 01.04.1989, Side 58
Tímarit Máls og menningar
yfir í nútíð og hér kemur fram á sjónarsviðið eitthvert „ég“ í ljóðinu sem
kemst að eftirfarandi niðurstöðu:
Hugljúfa samt ég sögu Gunnars tel,
þar sem ég undrast enn á köldum söndum
lágan að sigra ógna-bylgju ólma
algrænu skrauti prýddan Gunnarshólma.
„Hugljúfa samt ég sögu Gunnars tel. . .“. „Samt“? Þetta er merkilegt at-
viksorð á þessum stað. Hvað mælir gegn því að saga Gunnars sé hugljúf
fyrst hún er það „samt“? Er hún hugljúf þó að hann hafi verið drepinn, dá-
ið hetjudauða, eins og lýst var í fyrri hluta oktövunnar? Jónas veit það jafn
vel og við að hetjudauði Gunnars er aðalatriði sögu hans. Eða er saga
Gunnars hugljúf - þó að - hann hafi kosið að vera kyrr á Islandi, fara ekki
utan? Það er komin einhver margræðni í spilið, einhver undirfurðulegheit
og tvískinnungur sem minnir á Heine, uppáhaldsskáld Jónasar. En þessi
tvískinnungur hverfur í tveimur síðustu vísuorðum oktövunnar: „ég“
ljóðsins telur sögu Gunnars samt hugljúfa þegar hann horfir á Gunnars-
hólma, algrænan og sigursælan í baráttunni gegn söndunum og ógnandi
árásum árinnar. Náttúruöflin og barátta þeirra vekja furðu skáldsins og
einhverjar þær tilfinningar sem þurrka brosið af vörum hans.
Hver er „ég“ ljóðsins? Það er sjáandinn, sá sem getur hafið sig yfir hið
jarðbundna, séð náttúruna úr lofti eins og fugl, séð inn í hana, skapað í
orðum hið hættulega og hið fagra og hina hættulegu fegurð. Allt þetta hef-
ur skáldið rétt til að gera samkvæmt Jónasi sjálfum í ritdóminum um Sig-
urð Breiðfjörð. Einu takmörkin sem skáldinu eru sett, er að árangurinn
verði „eftirtektarverður". Og það verður hann í síðasta erindi Gunnars-
hólma.
Þar sem að áður akrar huldu völl,
ólgandi Þverá veltur yfir sanda;
sólroðin líta enn in öldnu fjöll
árstrauminn harða fögrum dali granda;
flúinn er dvergur, dáin hamra-tröll,
dauft er í sveitum, hnipin þjóð í vanda;
en lágum hlífir hulinn verndar-kraftur
hólmanum, þar sem Gunnar snéri aftur.
Þetta lokaerindi Gunnarshólma hefur oftast verið lesið sem allegoría um
sigur þjóðernisstefnu (val Gunnars) yfir eyðingaröflum nýlendukúgunar og
innri upplausn. En það er enginn sigursöngur, enginn fögnuður, í þessu er-
indi.
184
i