Tímarit Máls og menningar - 01.09.1994, Page 76
er í stöðugum vexti og mun með tímanum standa jafnfætis rituðu máli hvað
varðar kraft, skýrleika og fágun.
Helsti kostur og einkenni kvikmynda er án efa nálægðin við áhorfendur.
Þar sem hún höfðar til sjónsviðs er auðveldara að draga áhorfandann inn í
heim hennar. Hann er sér ómeðvitaðri um þátttöku sína en hann gæti
nokkru sinni verið sem lesandi. Samkvæmt Christian Metz næst þessi nálægð
vegna þess að kvikmyndin er „skammhlaups tákn“, þar sem táknið og
táknmyndin eru næstum eins. Tákn skáldsögunnar eru symbólsk ólíkt því
sem gerist í kvikmyndum, en þær sækja merkingu sína í flokkaðan táknheim
helgimynda. Að mati Bela Balázs auðveldar nálægð kvikmyndarinnar leik-
stjóranum „að sýna tilfmningar sem ekki er hægt að segja með orðum“
(Marcus 5).
Kvikmyndin er tilfinningamiðill sem eykur upplifun okkar á atburðum
og persónum skáldverks, því hún færir orð í myndir og veldur því að við
sjáum sögur sem við þekkjum vel á nýjan og spennandi hátt. Gagnrýnendur
hafa komið fram með ýmsar skilgreiningar á vel gerðri umsköpun skáldverks
yfir í kvikmynd. Gagnslaust er að lúta textanum í einu og öllu. Jean Luc
Godard telur jafn vænlegt að gera kvikmynd þar sem síðum bókar er flett.
Það eitt skiptir máli að kvikmyndin sé í anda verksins, þó sá boðskapur geti
oft verið ágreiningsefni eins og sést best í Sölku Völku. George Linden segir
markmið kvikmyndagerðarmannsins vera að draga ffam myndir sem hafa
„samskonar gildi“. Gagnrýnandinn verður því að meta hversu vel leikstjór-
anum hefur tekist að nýta sér efnivið skáldsögu til að skapa hliðstæðan heim
í formi myndar.
Kvikmyndun Sölku Völku
Kvikmyndun Sölku Völku 1954 skipar nokkra sérstöðu vegna þess að
skáldsagan er byggð á kvikmyndahandritinu „A Woman in Pants“ sem
Halldór Laxness skrifaði í Los Angeles 1928. Það er ýmsum erfiðleikum
bundið að bera saman sjö síðna kvikmyndahandrit með tveimur aðalper-
sónum og fjögur hundruð síðna skáldsögu með flókinni atburðarás og fjölda
persóna. Þó er ljóst að Salka kvikmyndahandritsins er ekki eins margbrotin
og vitsmunaleg og sú Salka sem skáldsagan lýsir. í handritinu beygir hún sig
undir vald karlmanns og hugsanlegar líkamsmeiðingar, eins og sado-masok-
ísk lokasenan gefur til kynna. Arnaldur er einnig víðs fjarri byltingarsinnuð-
um, marxískum menntamanni skáldsögunnar. í kvikmyndahandritinu er
því hvergi að finna pólitíska og þjóðfélagslega ádeilu skáldsögunnar. Það er
skiljanlegt þegar haft er í huga að 1928 var Laxness enn ekki orðinn róttækur
sósíalisti.
74
TMM 1994:3