Húnavaka - 01.05.1976, Side 84
HÚNAVAKA
82
var reyndar 4 árum eldri en hann, en við vorum bæði svo lítil að
við nenntum ekki að elta þær allan daginn. Og vináttan hélzt, þótt
hann yrði stærri og bæði þyrftu að vinna fyrir viðurværi sínu strax
og geta leyfði. Það gerði ég reyndar snemma af fúsum og frjálsum
vilja, en hann af illri nauðsyn og lét þá gjarnan kaupa frelsi sitt
með svita og fyrirhöfn.
Hann var illrækur með hrossum sakir ærsla og útúrdúra. Glhn-
inn með afbrigðum og fékk alla hesta til við sig. Það var oft unun
að horfa á þá mýkt og fimi. En ekki var alltaf sopið kálið, þó að
komið væri með hópinn heim að rétt. Þá tók hann sig oft út úr með
makkann kerrtan og hringaðan, hvimandi sitt á hvað, taglið sperrt
og engu minna hringað, fætur allir á lofti í einu að sjá og engu tauti
við hann komandi, en allra sízt að elta hann, því að þá var honum
dillað. Og mér var það reyndar stundum líka, að sjá tilburðina, en
pabbi varð argur, því að oft þurfti að liafa hraðar hendur að leggja
á fyrir bindingu og aðra aðkallandi heimilisnotkun.
Það varð því oftast snúningaminnst, að senda stelpuna með
snærisspottann, til þess að hnýta upp í kauða áður en galsinn greip
hann. Hann var stríðnisgaur og hrekkjalómur. Þess vegna kallaði
ég hann líka Lóm, þótt aðrir kölluðu hann oftast Litla-Brún til
aðgreiningar frá þeim góða og gilda Gamla-Brún. Litli-Brúnn varð
hnellinn og mjúkur miðlungshestur, lipur og skarpur við drátt og
vann sér létt undir böggum. Fór vel á honum reiðingur, svo að varla
þurfti að laga á honum þótt bundið væri daglangt. En það er
ekkert meira en segja má um allan fjölda þeirra brúkunarhrossa,
sem voru mönnum handgengin. — Það var margslungin skapgerð
hans, sem er og verður mér eftirminnileg. Og af honum lærði ég
meira um mannþekkingu og tillitssemi, en nokkru öðru fvrr og
síðar. Ég held að hann hafi líka mest og bezt kennt mér að skilja
skepnur, viðbrögð þeirra og hugsanagang. Síðan þýðir ekkert að tala
við mig um „skynlausar skepnur“.
Það sama hef ég sannprófað með mýmörgum atvikum hjá öllum
tegundum húsdýra okkar, sem umgangast menn náið og búa við
þroskavænleg skilyrði. Námfýsi þeirra og greind er auðvitað mis-
jöfn og einstaklingsbundin eins og okkar mannanna, persónugerðin
jafn ólík að upplagi og skapgerð. En við mættum oftar leiða hugann
að skyldleika okkar og tengslum við allt það hvika líf, sem hleður
undir okkar „sníkilmennsku" og ber hana uppi. Hvar við stæðum,