Dagblaðið Vísir - DV - 17.09.2010, Blaðsíða 32

Dagblaðið Vísir - DV - 17.09.2010, Blaðsíða 32
É g er hálffeimin við þetta viðtal,“ segir Ragna. „Ég hef alltaf fylgt því prinsippi að neita aldrei viðtali því mér fannst að almenningur ætti heimtingu á að vita eitthvað um mig og hvað ég væri að gera. Bakland mitt var í rauninni allir, því ég átti ekkert bakland inni í einhverjum þingflokki. Ég hef íhugað að hætta að veita viðtöl en ákvað að láta slag standa.“ Við sitjum í gömlu sófasetti í stofunni heima hjá Rögnu. Heimili hennar er engu öðru líkt. Sögu- frægt líka. Hér leigði Þórbergur Þórðarson herbergi og hér skrifaði hann Bréf til Láru. Teppi er á gólfum, veggfóður á veggjum og sófasettið er antík. Það er líkt og tíminn hafi staðið kyrr. Í frönskum gluggum þekja pottablóm gluggakisturnar og gefa lit og líf í annars brúntóna litapalettuna. Húsið keyptu þau árið 2005 áður en húsnæðisverð rauk upp úr öllu valdi. Alltaf verið tískudrós Hún er vel til fara að vanda, klædd í kjól frá Soniu Rykiel og svartlakk- aða ballerínuskó. Hún er tískudrós og eyðir háum upphæðum í föt. „Ég hef verið svona frá því að ég man eftir mér. Ég man eftir mér þar sem ég sat á gólfinu í mátunarklefa klædd í velúrsam- festinginn sem mig langaði í en mömmu fannst of snollaður á mig og neitaði að fara fyrr en hún hafði látið hann eftir mér. Ef ég á einhverjar slæmar minningar úr æsku þá var það að þurfa að klæðast úlpu sem mér fannst ekki flott. Ég tók það rosalega nærri mér,“ segir hún og hlær hátt. „Ég hef alltaf hugsað mikið um þetta en ég skal alveg viðurkenna það að mér finnst langskemmtilegast að gera góð kaup á útsölu. Þegar ég var ráðherra passaði ég mig á því að vera virðuleg af virðingu fyrir embættinu og almenningi. Íklæðast starfinu.“ Þegar hún kom fyrst út á vinnumarkað var henni ráðlagt að fara að kaupa sér dragt ef hún vildi að fólk tæki hana al- varlega. „Ég fór og keypti mér dragt en ég átti líka mussur og gekk í þeim. Ég blæs á það að maður þurfi að vera svona eða hinsegin til að vera tekinn alvarlega. Ef einhver ákveður að taka mig ekki al- varlega af því að ég er asnalega klædd þá er það hans mál,“ segir hún ákveðið. Ég stenst ekki mátið og spyr hvað hún eigi mörg pör af skóm. „Ég veit það ekki,“ segir hún og dæs- ir. „Mér finnast þau fá en maðurinn minn segir að þau séu mörg. Ég fæ samviskubit ef ég eyði pen- ingum í óhófi en reyni að réttlæta það þegar kem- ur að skóm og fatnaði. Það er veikleiki. Ég ætti ekki að vera svona hégómagjörn.“ Hún hefur samt ekk- ert tapað sér í lífsgæðakapphlaupinu þar sem hún ekur um á Volvo af árgerð 1995 sem á meira að segja eftir að fá skoðun, segir hún og andvarpar. Símtalið frá Jóhönnu Ragna var alin upp á Alþingi, eins og hún orðar það, þar sem hún hóf starfsferil sinn. Hún fór svo yfir í heilbrigðisráðuneytið og þaðan ætlaði hún í lögmennsku árið 2002. „Svo sá ég auglýsingu þar sem auglýst var eftir skrifstofustjóra í dómsmála- ráðuneytinu. Mér fannst það bara vera fyrir mig.“ Hún sótti um og fékk starfið. Þar ætlaði hún að vera í fimm ár en ílengdist fram til ársins 2008 þeg- ar henni var boðið að fara yfir í for- sætisráðuneytið. Þremur vikum síðar fékk hún óvænt símtal frá Jó- hönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. „Aldrei hafði mér dottið sá möguleiki í hug að ég yrði ráð- herra, aldrei,“ segir hún og leggur áherslu á orð sín. „Mér brá þegar Jóhanna hringdi en mér fannst ég ekki geta sagt nei. Ég hefði ekki getað litið í spegil ef ég hefði sagt nei. Ég hafði verið angistarfull yfir því hvort ég væri að gera nóg vegna bankahrunsins og þarna var kallið komið. Ég varð bara að gera þetta. En þetta var stórt skref því ég hafði starfað lengi sem hinn hlutlausi embættismaður. Ég var smeyk við það að stíga út úr því og kveið mest fyrir því.“ Með allar áhygggjur heimsins Kallið barst á föstudegi en svo fór það svo að rík- isstjórnin var ekki mynduð fyrr en á sunnudeg- inum. „Ég man nánast ekkert eftir þessari helgi,“ segir Ragna hlæjandi. „Ég sveiflaðist á milli þess að vera sátt við það að hafa sagt já og sjá mikið eft- ir því. Þegar Jóhanna spurði mig svaraði ég strax játandi. Munnurinn á mér sagði bara já. Það voru mín fyrstu viðbrögð. Fyrstu viðbrögð eiginmanns- ins voru: „Hvað ertu búin að koma þér út í?“ Ég heimsótti foreldra mína og tengdaföður og við ákváðum að þetta yrði okkar sameiginlega verk- efni því þótt ég sé ekki dugleg í heimilishaldinu þá munar nú samt eitthvað um mig. Fyrstu mán- uðina sá stórfjölskyldan alveg um heimilishaldið. Dætur mínar, sem voru þá 9 ára og 16 ára, spurðu vikulega hvenær ég myndi hætta sem ráðherra. Ég svaraði alltaf „bráðum“. Eftir nokkra mánuði sögðu þær: „Já, en mamma, þú segir þetta allt- af. Hvenær hættir þú?“ Eftir hálft ár hættu þær að spyrja. Þær voru farnar að venjast þessu og ég líka.“ Fyrstu mánuðina sem dómsmálaráðherra vaknaði Ragna á hverjum einasta morgni með allar áhyggjur heimsins á herðum sér. „Mér fannst þetta gífurleg ábyrgð og ég hafði miklar áhyggjur en ég lærði svo að takast á við álagið og láta það ekki íþyngja mér svona rosa- lega. Ég fór að geta litið glaðan dag líka.“ Ragna er reyndar einstaklega glaðlynd. „Ég hef ferlega gaman af því að grínast og geri gjarna grín að sjálfri mér. Oft hef ég þurft að einbeita mér að því að vera alvarleg þegar það er óviðeig- andi að vera skellihlæjandi. En maður leynir ekki eðli sínu, því miður eða sem betur fer.“ „Ég hikstaði og stamaði“ Hún var óvön því að koma fram í fjölmiðlum og óttaðist það mjög. „Daginn eftir að ríkisstjórnin tók við þurfti ég að koma fram í Kastljósi. Ég var dauðhrædd. Ég hélt að ég myndi ekki lifa þetta af. Ég skildi ekki hvernig fólk gat mætt í sjónvarps- sal og verið sallarólegt. En svo var það allt í lagi. Líka það að svara spurningum fréttamanna fyrir framan sjónvarpsmyndavélar. Þegar á reyndi var þetta ekkert mál.“ Hún hlær og rifjar upp atvik úr embættistíð sinni, áður en hún varð ráðherra. „Ég hikstaði og stamaði svo hroðalega að viðtalið var aldrei birt. Örugglega af því að ég stóð mig svo illa.“ Niðurrifið í pólitíkinni Annað sem hún áttaði sig á í ráðherratíðinni var að hún væri kona. Fram að því hafði hún aldrei hugsað neitt sérstaklega út í það. „Móðir mín hafði mikinn áhuga á kvenréttindabaráttunni en mér fannst jafnrétti svo sjálfsagt að það þyrfti ekki að ræða það. Nú hef ég séð að baráttunni er ekki lokið. Það er bara spurning hvenær í lífinu þú rek- ur þig á. Ég fór ekki að reka mig á fyrr en eftir að ég tók við sem ráðherra. Það sem körlum þykir gjarna veikleiki þykir konum oft styrkleiki. Marg- ir reyna að fá mann til að taka ákvörðun í svona embætti og þá er oft spurningin hvort maður á að kýla á það eða gera það öðruvísi. Ég var ekki mikið fyrir það að kýla á það án þess að vera með- vituð um það hvað ég væri að gera, af hverju og á hvaða forsendum. Ég vildi ekki taka ákvörðun bara til að sýna að ég gæti tekið ákvörðun.“ Hún hefur þegar lýst því yfir að hún ætli ekki í pólitík. Þegar hún svarar því hvernig það var að kynnast pólitíkinni í svo miklu návígi segir hún: „Áhugavert. Mjög áhugavert. Þetta er reynsla sem ég hefði ekki viljað missa af en pólitíkin höfðar ekki til mín.“ Hún sýpur á teinu. „Ég býst við að þegar þú ert komin inn í pólitíkina fyrir alvöru þá fyrst byrji ballið. Ef ég má segja það þá finnst mér þetta of mikið niðurrif.“ Þar sem hún var utan þings og utan flokka varð hún ekki vitni að átökunum sem eiga sér stað í pól- itíkinni. „Slíkt fer ekki fram við ríkisstjórnarborðið. Ég er því ekki dómbær á það hvernig pólitíkin fer fram bara af því að ég sat í ríkisstjórn.“ Endurkoma Ögmundar Formenn þingflokkanna, Jóhanna og Steingrímur, voru hennar helstu tengiliðir við ríkisstjórnina. Hún segir að samstarfið hafi gengið mjög vel hvað hana varðaði en hún vilji þó ekki tjá sig meira um þetta. „Kannski tala ég um það seinna. En ég verð að passa mig á því að segja ekki meira en ég þoli að lesa í blaðinu.“ Hún átti aldrei von á því að sitja svo lengi í emb- ætti og var því ekki svekkt þegar henni var skipt út fyrir Ögmund. „Það var farið að tala um endur- komu Ögmundar daginn sem hann hætti og nú er hann kominn. Ég bjóst við því að þetta yrði svona þriggja mánaða verkefni. Þannig að mér fannst eitt ár og sjö mánuðir ótrúlega langur tími. Nokk- uð snemma var farið að tala um það að mér yrði skipt út. Auðvitað getur verið erfitt að missa ekki einbeitinguna undir slíkum kringumstæðum en ég ákvað að láta það ekki hafa áhrif á mig. Ég vissi það auðvitað ekki fyrir víst að ég yrði látin fara fyrr en það var tilkynnt, en það kom mér alls ekki í opna skjöldu.“ Með samviskubit Yngri dóttir hennar kemur inn og heilsar. „Hæ, ást- in,“ segir Ragna. „Ég er í viðtali, hjartað mitt.“ Stelp- an meðtekur skilaboðin og fer inn í annað herbergi. Erfiðast var að kveðja samstarfs- fólk til margra ára. „Það var skrýtið og tilfinningaþrungið.“ Hún ætlar ekki aftur í sama starf og hún gegndi áður í ráðuneytinu. „Það er ekki mjög heillandi tilhugsun að fara aft- ur á sama stað. Það væri ekki bara það að standa í stað heldur að fara pínulítið aftur á bak.“ Hún hefur samt ekki hugmynd um hvað hún tekur sér fyrir hendur. Það mun ráðast á komandi vikum eða mánuðum. „Ég er svo nýhætt sem ráðherra að ég er ekki komin á þann stað að ég geti gefið eitthvað út um það. Ég er týpískur Íslend- ingur, með samviskubit yfir því að taka mér smá frí en ég hef ekki tekið mér alvöru sumarfrí síðan 2007 og ætla að leyfa mér það. Mér líður illa í fríi og það er eitthvað sem ég þarf 32 VIÐTAL UMSJÓN: INGIBJÖRG DÖGG KJARTANSDÓTTIR ingibjorg@dv.is 17. september 2010 FÖSTUDAGUR „Ég var mjög einmana“ Ragna Árnadóttir fæddist mánuði fyrir tímann, var pínulítil písl þar til hún varð fjórtán ára og sköllótt þar til hún varð fjögurra ára. Hún átti hamingjusama æsku nema hvað hún var lamin í skóla í Danmörku og þjáðist af einmanaleika þegar hún flutti að heiman 16 ára. Þá var hún í uppreisn gegn kröfunum sem gerðar voru til hennar og hvítþvoði englastimpilinn af sér. Aldrei datt henni í hug að hún yrði ráðherra og enn síður að hún yrði nefnd sem næsti forseti Íslands. Hún er kona sem kann ekki að elda og þarf að reiða sig á eiginmanninn þegar hún býður vinum í mat. Að sama skapi hefur hún átt lítinn tíma með börnunum. Nú stendur til að bæta úr því. Hún ætlar að ná tökum á vinnufíkninni og sjá um matinn fyrir fjölskylduna. Ég hélt að ég myndi ekki lifa þetta af. Auðvitað komu upp atvik sem mér fannst hroða- legt að fást við en þegar þeim var lokið vissi ég að ég hafði lifað það af, komist í gegnum það. Eins og mót mælin við heimili mitt. Maður leynir ekki eðli sínu.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.