Dagblaðið Vísir - DV - 17.09.2010, Blaðsíða 34
yfirvinna það og hef gert það. Feimnin blundar
alltaf í mér. Ég gat aldrei vanist því að sjá myndir
af mér í blöðunum. Verst var að vera á forsíðu.“
Ég spyr hvort hún sé ekki á leið í forsetaemb-
ættið og hún skellir upp úr. „Ekki spyrja mig að
þessu,“ segir hún á milli hlátra-
skallanna. „Sú hugmynd er ekki
frá mér komin, svo mikið er víst.
Tilhugsunin er mér afar framandi.
Það er það eina sem ég vil segja
um forsetaembættið.“ Hún horfir
út um gluggann og bætir því við
að enginn viti sína ævi fyrr en öll
er. „Ég get ekki verið í fríi endalaust. Ég verð að
vera ábyrgur Íslendingur og fara að gera eitthvað.
En ég ætla að geyma það í nokkrar vikur enn,“
segir hún og lítur brosandi á mig.
Lamin í skóla
Ragna Árnadóttir er kona með flekklausan feril.
Hún átti hamingjusama æsku og hélt að lífið væri
og ætti að vera fullkomið. „Að vísu var ég lamin í
skóla í Danmörku þegar ég var sjö ára en það var
af því að ég var Íslendingur. Mér fannst það voða
leiðinlegt en ég skildi það aldrei og tók það ekki til
mín.“ Hún hlær dátt en leiðir samræðurnar síð-
an inn á alvarlegri brautir. „Þegar ég var yngri hélt
ég að lífið ætti að vera fullkomið, ég ætti að vera
fullkomin og allir í kringum mig væru fullkomn-
ir. Ég stóð í þeirri trú alveg fram á unglingsárin.
Þá komst ég að því að þetta væri ekki svona. Sem
betur fer, því fyrst ég hélt að ég ætti að vera full-
komin en fann að ég var það ekki velti ég því fyrir
mér hvort ég væri eina manneskjan sem væri ekki
fullkomin. Ég er eins breysk og það getur orðið.
Dætur mínar þurfa að vita það að mamma þeirra
hefur sína veikleika, það styrkir þeirra sjálfsmynd
að þekkja foreldra sína.“
Uppreisnin á unglingsárunum
Fyrstu ár ævi sinnar var hún alltaf engillinn í
bekknum sem las bók á dag og olli móður sinni
helst áhyggjum með þessu grúski. Hún fædd-
ist mánuði fyrir tímann, átta marka písl sem fór
beint í hitakassann og fékk guluna og allt. Ragna
segir að það sé líklega ástæðan fyrir því að hún
fékk ekki almennilega hár fyrr en hún varð fjög-
urra ára. „Ég var lítið sköllótt barn. Ég hef alltaf
verið stuttklippt og það er sennilega ástæðan fyr-
ir því. Hárið á mér hefur aldrei boðið upp á neitt
annað. Mín ímynd af sjálfri mér er líka sú að ég
sé stutthærð.“
Hún var minnst í bekknum þar til hún varð
fjórtán ára. Þá tók hún stökk og á einu ári óx hún
svo svakalega að hún fór frá því að vera minnsta
stelpan í bekknum yfir í það að verða næststærst.
Framan af gerði hún allt sem ætlast var til af
henni. Og það voru ekki litlar kröfur gerðar til
hennar. Hún var fyrsta barn foreldra sinna og
fyrsta barnabarn móðurafa og ömmu. Þau höfðu
miklar væntingar til hennar. Hún eignaðist ekki
systkini fyrr en bróðir hennar fæddist þegar hún
var átta ára. Hinn kom þegar hún var tólf. „Síð-
an gerði ég uppreisn og varð mjög
óþekk,“ segir hún og hlær. Hún
vill ekki fara mikið út í afrek sín í
uppreisninni en segir að hún hafi
verið að hrista af sér þetta engla-
orðspor. „Það voru gerðar mikl-
ar kröfur til mín og á einhverjum
tímapunkti ætlaði ég að láta allt
lönd og leið. Minn eigin metnaður kom svo í veg
fyrir það. Ég fór í menntaskóla og háskóla eins og
ég hafði alltaf ætlað mér, enda held ég að það hafi
verið ákveðið fyrir mig. Mín uppreisn á unglings-
árunum var hvellhettur, sprengingar hér og þar,
en ekkert sem hafði alvarlegar afleiðingar.“
Flutti að heiman 16 ára
Hún flutti að heiman sextán ára gömul og flúði
foreldra sína í Kópavoginum alla leið norður í
land þar sem hún settist á skólabekk í Mennta-
skólanum á Akureyri. „Ég varð að fara burt frá
mömmu og pabba og þau voru nógu örlát að
leyfa mér það. Ég hafði gott af því. Ég þurfti að
læra mína lexíu án þess að foreldrar mínir héldu
verndarhendi yfir mér. Ég þurfti að reka mig á
það að ég þyrfti að læra eins og allir aðrir til að ná
prófunum og ég þyrfti að mæta í skólann. Fyrsta
árið var svolítið brokkgengt í því. Ég átti að vera í
hæsta flokki en var það ekki, ekki fyrst um sinn.“
Dóttir hennar kemur inn í stofuna. „Hæ, ást-
in mín. Ætlar þú að fá þér að borða?“ spyr Ragna.
Dóttir hennar er búin að borða og vildi bara láta
vita af því að hún er á leið út að hitta vinkonurnar.
Eins reyndist það Rögnu erfitt að fara út og
kynnast krökkunum. Hún var of feimin til að hafa
sig í frammi. „Ég var mjög einmana í hálfan vet-
ur. Ég ákvað svo að fylgja ráðum ömmu, sem var
alltaf með ýmsa speki á hraðbergi og sagði: „Þú
ert það sem þú ákveður að vera.“ Ég tók ákvörð-
un um að láta feimnina ekki hindra mig lengur.
Mig langaði líka til að vera skemmtileg. Mig lang-
aði ekki til þess að sitja lengur ein inni á herbergi
og þykjast vera upptekin. Þannig að ég tók þessa
ákvörðun. Það var rosalega gaman að komast að
því að það var fullt af fólki sem vildi tala við mig.
Ég komst að því að ég var bara alveg ágæt, mér
fannst það nú reyndar líka alltaf sjálfri.“
Hin fullkomna eiginkona
Eiginmanninum Magnúsi Björnssyni kynntist
hún þegar hún var að ljúka lögfræðinni og hann
var á lokaárinu í tannlækninum. Þau smullu strax
saman þegar þau hittust á balli. Örlög þeirra voru
síðan ráðin þegar hann bauð henni á stefnumót
á Bíóbarnum. Hún var nú samt
ekki á þeim buxunum að fara í
samband, hafði hugsað sér að
fara til Flórens með vinkonu sinni.
„Hann hafði betur. Ég féll fyrir
honum þó að ég hafi ekki ætlað
mér það.“
Ég spyr hvernig eiginkona
hún sé og hún hlær sínum smit-
andi hlátri. „Ætli ég sé ekki hin
fullkomna eiginkona? Æ, ég veit
það ekki. Við höfum verið sam-
an í 19 ár og ég spyr hann stund-
um hvernig það sé nú með hann,
að sitja uppi með þessa konu en
hann segist vera ánægður með
hana. Ég hef ekki hugmynd um
það af hverju við erum enn saman, ég luma ekki á
neinum ráðum eða leyndardómum. Tíminn líð-
ur svo hratt. Allt í einu er ég orðin 44 ára gömul. Ef
lífið væri alltaf eins yrðir þú dauðleið á því. Í lífinu
skiptast á skin og skúrir og þess vegna kanntu að
meta góðu stundirnar. Það á jafnt við um hjóna-
band, vinnu og annað.“
Vinnufíknin hættuleg
Núna langar Rögnu fyrst og fremst til þess að gefa
sig meira að heimilinu. „Ég er alveg einbeitt í því.
Ég hef verið svo lánsöm að eiga góða að en ég hef
verið svo fókuseruð á vinnuna að það má kalla
það vinnufíkn. Það er ekki gott að vera vinnufíkill.
Þannig að ég verð að sinna áhugamálum og fjöl-
skyldu betur í stað þess að kaffæra mér í vinnu. Ég
get alveg gleymt mér, verið tímunum saman við
vinnu og á meðan tek ég ekki eftir neinu í kring-
um mig. Eftir slíka törn líður mér afskaplega vel,
það færist yfir mig vellíðan en þá er ég komin á
hættusvæði. Vinnan er ekki allt. Það er meira í líf-
inu en vinna.“
Innri togstreita
nútímamóður
Hana langar til dæmis að eyða meiri tíma með
dætrum sínum. „Þú byggir ekki upp samband-
ið við börnin þín seinna. Þú gerir það strax frá
fæðingu. Ég á óskaplega gott samband við dæt-
ur mínar og þær hafa reynst mér mikil stoð í ráð-
herratíðinni. Þegar ég kom heim með hárið út í
loftið sagði eldri dóttirin gjarnan: „Mamma, vertu
róleg, þú þarft ekki að vera svona stressuð, þetta
verður allt í lagi.“ Ég er mjög stolt af því hvern-
ig þær tóku á þessu. Við höfum alltaf getað tal-
að mikið saman en við höfum ekki eytt miklum
tíma saman. Vandamál nútímakonunnar er að
vilja vera allt í senn, á framabraut, góð móðir og
allt hitt sem við þurfum að vera. Þetta eilífa sam-
viskubit sem við drögnumst með er óþolandi og
ég vildi óska þess að ég væri ekki haldin þessari
togstreitu. Ég get vel verið góð móðir þótt ég hafi
ekki allan heimsins tíma. Engu að síður langar
mig að hafa betri innsýn í líf dætra
minna en ég hef haft undanfarin
ár. Ég vil vera þátttakandi í þeirra
lífi. Ég þarf bara að passa mig á því
að vera ekki of ráðrík, ég á það til.“
Matreiðslan er mér ofviða
Fyrsta mál á dagskrá er kvöldmat-
urinn. „Eitt af mínum markmið-
um er að læra að búa til mat. Ég
kann að búa til kjötbollur, spagettí
og grjónagraut en annað er mér
ofviða. Maðurinn minn sér algjör-
lega um eldamennskuna á þessu
heimili. Ef ég vil bjóða fólki í mat
verð ég að bera það undir hann
fyrst,“ segir hún flissandi. „Ég reyni
að kaupa inn en ég var þannig að um leið og ég
kom inn í matvörubúð fékk ég svitakast, ég vissi
ekkert hvað ég ætti að kaupa eða hvernig ég ætti
að fara að þessu. Mér finnst ég hálfgerður aum-
ingi að geta ekki boðið vinkonum mínum í mat
án þess að þurfa að biðja manninn minn um að
elda,“ segir hún glottandi. „Þær hafa nú stundum
hlegið að þessu. Mér fannst þetta fyndið fyrst en
þetta er ekki hægt. Ég held að fyrsta skrefið sé að
bjóðast til þess að sjá um matinn í kvöld. Ég gerði
það í gær og eldaði pasta með pastasósu. Það var
einfalt. Í kvöld ætla ég líka að sjá um þetta.“
Nýtir erfiðleikana til góðs
Þó að leið hennar virðist hafa verið nokkuð slétt
og felld hefur Ragna staðið frammi fyrir erfiðleik-
um. „Hvernig þroskast fólk ef það tekst ekki á við
erfiðleika og horfist ekki í augu við sjálft sig? Ég
hef tekist á við ýmislegt í mínu lífi. Það hefur ekki
verið bein braut. En hvað er spennandi við það að
vera gallalaus? Mér hefur liðið illa þegar mér átti
að líða vel en hverjum líður alltaf vel? Manneskja
sem lifir lífi sem er alltaf dans á rósum hlýtur að
vera í mikilli sjálfsblekkingu.“ Ragna vill þó ekki
ræða þetta nánar. „Reynsla getur bugað mann en
hún getur líka styrkt mann. Hún getur lyft manni
upp á annað plan. Ég hef reynt að nýta þessa
reynslu til góðs og læra af henni. Ég gæti setið hér
og velt mér upp úr erfiðleikunum en þá myndi ég
aldrei halda áfram, bara sökkva dýpra.“
Með bók í maganum
„Ég ætti kannski bara að verða skáld,“ segir hún og
hlær. Hún er síhlæjandi þessi kona og hláturinn
smitar út frá sér. „Afi skrifaði, orti og þýddi,“ segir
hún en afi hennar var Ragnar Jóhannesson. „Ég
hef verið að velta þessu fyrir mér en það er ekki
víst að ég hafi hæfileikana til þess. En mig lang-
ar að koma ýmsu frá mér. Það er bara spurningin
hvort ég drífi í því og ef ég fer af stað er spurning
hvort ég klári það. Ég veit ekki hvort þetta kemst
út og þá hvernig. Ég enda kannski eins og amma
mín, alltaf með spakmæli á reiðum höndum.“
34 VIÐTAL 17. september 2010 FÖSTUDAGUR
Ég ætti ekki
að vera svona
hégómagjörn.
Mér finnst ég hálf-
gerður aumingi
að geta ekki boð-
ið vinkonum mín-
um í mat án þess
að þurfa að biðja
manninn minn
um að elda.
KONA RÁÐHERRA
Þar til Ragna settist
í ráðherrastól hélt
hún að jafnrétti ríkti á
Íslandi. Hún komst að
raun um að svo er ekki.
MYND RÓBERT REYNISSON
UPPREISN UNGLINGSINS
Miklar kröfur voru gerðar til Rögnu
sem átti alltaf að vera í hæsta flokki.
Hún gerði uppreisn og ætlaði að
gefa skít í það, en metnaðurinn
kom svo í veg fyrir það.
MYND RÓBERT REYNISSON