Són - 01.01.2004, Page 12
VALGERÐUR ERNA ÞORVALDSDÓTTIR12
Þeir sem skiptust á orðum hér að framan voru Haraldur Sigurðsson
harðráði, Noregskonungur frá 1046 til 1066, og skáld hans, Þjóðólfur
Arnórsson. Samkvæmt Skáldatali hafði Haraldur þrettán skáld í þjón-
ustu sinni, fleiri en nokkur annar konungur.10 Margar frásagnir eru af
samskiptum hans við skáldin í Morkinskinnu og ef marka má þær var
hann bæði gagnrýninn á eigin verk og annarra.11 Sjálfur var hann
ágætt skáld og eftir hann eru varðveittar nítján vísur og vísubrot.
Þjóðólfur Arnórsson var að sögn sonur fátæks bónda úr Svarfaðar-
dal en komst til mikilla metorða við norsku konungshirðina. Fyrst
spurðist til hans í Noregi á árabilinu 1031–35 og svo aftur um áratug
síðar, árið 1044.12 Eftir fall Magnúsar góða Noregskonungs varð
Þjóðólfur höfuðskáld Haralds harðráða og í mestum metum hjá
honum enda hafði Þjóðólfur fullkomið vald á dróttkvæðalistinni.
Allmikið af kveðskap hans hefur varðveist: flokkur um Magnús góða,
brot úr runhendu kvæði um Harald harðráða, drápan „Sexstefja“ sem
einnig er ort um Harald auk lausavísna, alls rúmlega níutíu vísur.
Gamansemi er ekki áberandi þáttur í kveðskap Þjóðólfs og ef marka
má orð hans hér að framan hefur hann haft ákveðnar hugmyndir um
hvaða yrkisefni hæfði fremsta skáldi konungs.
Vísurnar tvær um sútarann og járnsmiðinn sýna óvænta hlið á hinu
hrokafulla skáldi. Þær eru snilldarvel ortar og leiftra af fjöri og orð-
kynngi. Það er eftirtektarvert að hinn kristni konungur skipar skáldi
sínu að nota heiðnar hetjur og goð sem fyrirmyndir í vísunum. Á 11.
öld verður vart við nokkra tregðu hjá skáldunum til að smíða heiðnar
kenningar og þar er Þjóðólfur engin undantekning.13 Nöfn heiðinna
goða koma fyrir í tveimur einföldum hermannakenningum í lausa-
vísum hans, menn víga Freys og lið-Baldr14 og sverð er kennt sem sigð
Gauts í þrítugasta erindi „Sexstefju“15 en Gautur er Óðinsheiti. Hann
vísar einnig til goðsagna í fáeinum kenningum í „Sexstefju“, kallar
10 Turville-Petre (1968:5).
11 Haraldur setti t.a.m. út á vísu eftir Þjóðólf þar sem hendingar voru ekki réttar að
mati konungsins. (Morkinskinna 1932:248). Í lokaorrustunni við Stamford Bridge á
Englandi árið 1066 kvað Haraldur fremur einfalda vísu undir fornyrðislagi en
þótti hún ekki nógu vel ort og bætti því um betur með glæsilegri vísu undir drótt-
kvæðum hætti. (Morkinskinna 1932:276).
12 Finnur Jónsson (1920:613).
13 Vries (1964:227–228). Bjarne Fidjestøl (1993) skoðaði áhrif kristninnar á kenn-
ingar dróttkvæðaskálda í greininni „Pagan beliefs and christian impact: The con-
tribution of scaldic studies“ sem birtist í Viking Revaluations.
14 Skj BI (1912:347 og 351).
15 Skj BI (1912:346).