Gripla - 01.01.1993, Blaðsíða 137
UM FORMÁLA ÍSLENSKRA SAGNARITARA
137
á íslensku. Orðið gefur vísbendingu um tíðni og eðli þeirra. Sú tegund
ritklifa, sem hér kemur við sögu, fellur undir hugtakið captatio bene-
volentiae, þ.e. þau málbrögð sem beitt er til að öðlast velvild áheyr-
enda eða lesenda. Þessi ritklif eru ávörp, bókarefni, tilefni, ritbeiðni,
vinnubrögð, heimildir, stíll, form, viðhorf til áheyrenda eða lesenda,
tilgangur og loks beiðni um leiðréttingar á verki.
Þessum ritklifum, sem eru frumhugtök og grunnur rannsóknarinnar,
gerir doktorsefni fræðileg skil og leiðir í ljós, hvernig þau birtast í ís-
lenskum formálum. Allajafna ber hann ekki saman að fullu erlenda og
innlenda formála, heldur bendir hann á einstök ritklif í þeim til að
sýna erlend áhrif í íslenskum formálum. I doktorsritinu er urmull
dæma og tilvitnana til erlendra formála og retórískra handbóka, sem
hafa orðið til á ólíkum tímum, svo að skakkar öldum, víðs vegar í hin-
um latneska menningarheimi Evrópu. Þetta er í sjálfu sér fróðlegt og
lærdómsríkt en augljóst, að litlar líkur eru á því að öll þau rit eða
handbækur, sem doktorsefni tilgreinir til að styðja mál sitt, hafi borist
til íslands. Virðist því oftast ráða hending ein hvaða erlenda formála-
dæmi er haft til hliðsjónar. Hér er því um almenna menningar- eða
bókhefð að ræða en ekki áhrif frá einu ritverki til annars. Þetta hlýtur
að torvelda rannsóknina og brýna menn til aðgætni í niðurstöðum með
því að samanburðardæmin geta verið í miklum fjarska hvert frá öðru,
ýmist hvað snertir merkingarlegt samhengi, stað eða tíma.
Sverrir Tómasson kemur býsna víða við í bók sinni og skyggnist um
lærdómslendur evrópskrar miðaldar. Hann víkur að og glímir við fjöl-
mörg torleyst vandamál íslenskrar sagnaritunar og bókmenntafræði.
Hann gerir ráð fyrir, að helsti milliliður latínumennta og innlendrar
menningar séu bækur sem hafðar voru um hönd í skólum, klaustrum
eða lærdómssetrum hér á landi og rekur leið formálanna eftir bókum.
Jakob Benediktsson mun taka til nánari umræðu þá kafla í bók
doktorsefnis sem greina frá latneskum menntaheimi, retórík og lær-
dómslistum hérlendis á miðöldum. Hins vegar mun ég ræða fimm meg-
inþætti könnunarinnar, en þeir eru bygging bókarinnar, skilgreining
formála, afmörkun rannsóknarefnis, formálaskýringar og að endingu
formálahefð og innlend frásagnarhefð.