Gripla - 01.01.1993, Blaðsíða 254
254
GRIPLA
þýsku sálmaskáldunum Páli og Jóhanni Gerhardt’ (Inngángur að Passíu-
sálmunum, bls. 21), en nærri liggur að hann neiti því að nokkur sérstök
áhrif frá Biblíunni sé að finna hjá Hallgrími:
Vísdómsorðin í Passíusálmum eru til dæmis aldrei frá Jesú, held-
ur venjuleg alþýðleg lífsspeki frá 17du öld, stundum í eðli sínu
kristin, stundum heiðin. Endurlausnarhugmynd skáldsins er ekki
heldur reist á beinum ívitnunum guðspjallanna né rökstudd á
skólastíska vísu, heldur aðeins skyldujátning kristinnar trúar eins
og hún var boðuð almúganum (bls. 36-37).
Arne Mpller hefur manna mest rannsakað innlend og erlend áhrif á
Passíusálmana. í riti sínu, Hallgrímur Péturssons Passionssalmer (1922),
bendir hann sem fyrirmynd á Píslarsaltara séra Jóns Magnússonar í
Laufási (1655), en sýnir einkum glögglega fram á áhrif rits eftir þýskan
prest, Martin Moller. Rit þetta, Soliloquia de Passione Jesu Christi
(1587), var mjög fljótlega þýtt á íslensku af Arngrími lærða Jónssyni og
prentað á Hólum 1599 (og í þriðja skipti 1651) og nefndist Eintal Salar-
ennar vid sialfa sig. En Arne Mpller sá, að margt var að finna í Passíu-
sálmum sem átti sér enga fyrirmynd í Eintali, og því hélt hann áfram
rannsóknum sínum og birti í Edda 1923 ritgerð, þar sem hann spyr: ‘Er
Johann Gerhards Commentarius de Passione in Harmoniam Historiæ
Evangelicæ af 1617 benyttet af Hallgrímur Pjetursson i Passionssalmer-
ne?’ Eiginlega finnst honum fremur erfitt ‘at give et ganske bestemt Ja
eller Nej paa dette Spprgsmaal’ (bls. 252), en á meðan hann grúskar í
guðfræðibókum hættir honum til að gleyma að Hallgrímur kynni að
hafa þekkt Biblíuna svo rækilega, að hann þyrfti ekki á útlendum guð-
fræðingum að halda til að vísa sér á vers hennar.
Hér er ekki um að ræða söguþráðinn, sjálfa píslarsöguna, sem er
kjarninn í hverjum sálmi og augljóst er, að tekinn er jöfnum höndum úr
öllum fjórum guðspjöllunum. Hvorki af skáldi né lesendum er krafist
mikillar biblíuþekkingar til að velja eða þekkja ritningarorð þessi, sem í
sumum útgáfum hafa jafnvel verið prentuð með skáletri eða milli tilvitn-
unarmerkja. (Sjá 41. útgáfu, ísafold 1897, bls. 224.) En þótt kjarni sálm-
anna sé píslarsagan, felst stærsti og dýrmætasti hluti þeirra í útskýring-
um og hugleiðingum, eða ‘umþenkingum' eins og Hallgrímur orðar það
sjálfur, sem skáldið vinnur úr söguefninu, en í þessar hugleiðingar sækir
hann efni ekki bara úr guðspjöllunum heldur úr Biblíunni allri.
Passíusálmarnir hafa tvisvar verið gefnir út ásamt tilvitnunum í ritn-