Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Side 93
93
dæmigerðum slægjum.63 Ræða mætti stöðu Guðrúnar Gísladóttur í ís-
lensku listalífi, en hún var í einu af burðarhlutverkum Offret (1986, Fórnin)
eftir rússneska höfundarleikstjórann Andrei Tarkovskí.64 Að sama skapi er
staða handritshöfundarins sterk, ekki aðeins innan íslenskra bókmennta og
sem túlkanda á evrópskri menningarsögu tuttugustu aldar. Hann hefur
einnig unnið með danska kvikmyndaskáldinu Lars von Trier, en Sjón var
tilnefndur til Óskarsverðlauna ásamt Trier og Björk fyrir lagið „I’ve Seen
It All“ í Dancer in the Dark (2000, Myrkradansarinn).65
Síðast en ekki síst eru dreifingarleiðir og upprunastaður kvikmynda
merkingarskapandi þættir sem geta auðveldað viðtakendum að túlka
RWWM sem einhvers konar blöndun hins háa og lága, sem fagurfræðileg-
an listhroða sem sækir í senn í slægjuna og þau sjálfstæðu höfundarverk
sem framleidd voru í Evrópu á síðari hluta tuttugustu aldar.66 Þá mótast
viðtökurnar á því hvernig myndin er kynnt á alþjóðlegum kvikmyndahátíð-
um og hvort hún sé sýnd í kvikmyndahúsum sem sérhæfa sig í myndum sem
liggja utan dreifingarkerfis Hollywood. Slíkar kvikmyndir þykja almennt
merkilegri en meginstraumshryllingurinn, þar sem þær eru venjulega
tengdar listrænum metnaði og höfundarhugmyndum (e. auteurism).
Sú merkingarsköpun sem verður til með hugmyndinni um átök þjóð-
arbíós og heimsmynda er af svipuðum toga. Hugsanlega má útskýra nei-
63 Júlíus leggur áherslu á reynslu þeirra sem komu að myndinni í viðtalinu við
Jóhann Bjarna Kolbeinsson: „Það er gaman að fá loksins að gera mynd þar sem
maður er með alvöru fólk í hverri stöðu og peninga í það.“ Sjá „Hvorki ,splatter‘
né B-mynd“. Með orðum sínum leggur Júlíus áherslu á að með RWWM hafi orðið
stefnubreyting á leikstjórnarferli sínum, en hann hafði áður gert myndir sem voru
jafn ódýrar í framleiðslu og B-myndirnar sem hann fjarlægir sig nú frá.
64 Slíkar merkingarskapandi tengingar eru þó alltaf flóknar og geta snúist gegn þeim
sem setja þær fram, t.d. þegar haft er í huga að margar stórleikkonur enduðu feril
sinn í misvönduðum hryllingsmyndum, eins og t.d. bandarísku Hollywood-
stjörnurnar Bette Davis, Joan Crawford og Joan Bennett.
65 Bergsteinn Sigurðsson drepur á þessu í dómi sínum, „Kvalaskoðunarferð“, þegar
hann segir: „Til að sjá myndinni fyrir lævi blöndnu lofti fengu þeir Júlíus Kemp og
Ingvar Þórðarson Sjón til að skrifa handritið. Það vekur líka athygli að við kynn-
ingu á myndinni hefur meiri áhersla verið lögð á framlag handritshöfundarins en
leikstjórans. Kannski vegna þess að aðstandendur hennar vita að samanburður á
fyrri verkum þeirra beggja er — með fullri virðingu — ekki leikstjóranum í hag.“
66 Um þessar kvikmyndir má t.d. lesa í David Bordwell, „Listræna kvikmyndin sem
aðferð í kvikmyndagerð“, þýð. Guðni Elísson, Kvikmyndagreinar, ritstj. Guðni
Elísson, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2006, bls. 46–64. Þessi leið er í sjálfu sér ekki
ný af nálinni, Last House on the Left er t.d. endurgerð á Jungfrukällan (1960, Ingmar
Bergman, Jómfrúarlækurinn).
UNDIR HNÍFNUM