Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Page 98
98
ójafnvægi persóna og frásagna sé ef til vill einn helsti styrkleiki heildar-
innar.3
Höfundurinn Almodóvar hefur verið umdeildur frá upphafi ferils síns.
Víða um heim má finna umfjöllun um og gagnrýni á þær sautján kvik-
myndir leikstjórans sem komist hafa í almenna dreifingu. Slúðurpressan
og aðrir fjölmiðlar eru uppteknir af stjörnuímynd leikstjórans — reglulega
berast til dæmis fregnir af skrautlegu hátterni hans og baráttu við auka-
kílóin. Viðtöl, verðlaunaafhendingar og óvenjuleg markaðssetning mynd-
anna valda einnig gjarnan fjölmiðlafári. Róttækir jaðarhópar eins og fem-
ínistar og íhaldssamir fulltrúar kirkjunnar hafa fundið sig knúna til að taka
þátt í slíkri umræðu með stríðum lestri á sama tíma og aðrir afmiðjaðir
hópar feðraveldisins — til að mynda samkynhneigðir og „húsmæður“
hampa verkunum sem ákjósanlegum spéspeglum. Þeir menningarfræð-
ingar sem uppteknir eru af samfélagshræringum Spánar eftir fráfall Franco
álíta myndirnar kjarna umrótið sem átt hefur sér stað síðan.4
Augljóst má því vera að sitt sýnist hverjum en til þess að draga upp
heildstæða mynd af ferli og höfundarverki Almodóvar þarf að gefa öllum
þessum þáttum tilhlýðilegan gaum. Aukin margræðni auðgar heildar-
myndina þar sem lestur á verkum leikstjórans getur aldrei verið einhliða
annaðhvort eða.
3 Hugtökin camp og kitsch eru afar margræð og merkingarhlaðin þannig að örðugt
er að þýða þau á staðgóða íslensku án þess að tapa merkingaraukum í leiðinni. Hér
hefur heitunum því verið leyft að halda sér en stafsetningin er felld að íslensku
máli. Þess má geta að Friðrik Rafnsson notaði orðið kits í þýðingu sinni á
Óbærilegum léttleika tilverunnar eftir Milan Kundera, Reykjavík: Mál og menning,
1998 [1984]. Í póstmódernískum skilningi eru veraldlegir hlutir daglegs lífs gild-
ishlaðnir á sama tíma og þeir eru plastlíki, eftirlíkingar og fjöldaframleiddir. Leik-
mynd og búningar höfundarverks Almodóvar eru skipuð neytendavænum tísku-
fyrirbærum sem eru kits og kamp en hugtökin eru nátengd. Hið fyrra á við hluti en
það síðara lýsir fremur viðhorfum, klæðnaði og framkomu. Óvirkir neytendur geta
skreytt sig með kitsi án þess að í því liggi tvíræð merking, neysla þeirra er þá aðal-
lega lituð af síðauðhyggju, en kampi fylgir aftur á móti alltaf ásetningur og ádeila.
Það einkennist af púkalegheitum, óhófi án fyrirlitningar, sýndarmennsku, ævin-
týralegum melódramatískum brag og síðast en ekki síst afbyggingu á viðteknum,
óvirkum viðhorfum og þjóðerniskennd. Í upphafi ýkti jaðarinn kaldhæðnislega þá
þætti sem miðjan forsmáði hann fyrir en nú geta allir tekið þátt í að sneypa með-
almennskuna.
4 Francisco Franco (1892–1975) var fasískur leiðtogi þjóðernissinna í spænsku
borg ara styrjöldinni (1936–1939). Í kjölfar hennar útnefndi hann sig höfuð spænska
þjóðríkisins (sp. Estado Español) og ríkti einráður yfir landinu allt til dauða.
hjöRDís stEfáNsDóttiR