Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Page 196
196
myndanna beina hins vegar sjónum að sjálfri eyðileggingu Tvíburaturnanna
á óbeinan hátt, og má segja að þær hafi vakið hvað sterkust viðbrögð meðal
gagnrýnenda. Bandaríska framlagið, sem leikstýrt er af Sean Penn, tekur
t.d. róttæka afstöðu. Þar er sögð saga einbúa í óhrjálegri og dimmri íbúð á
neðri hluta Manhattan sem hefur glatað tengslum við umhverfið. Þegar
sólin tekur skyndilega að skína inn um gluggann hjá honum gleðst hann,
án þess að átta sig á því að World Trade Center-byggingarnar sem vörp-
uðu skugga á hýbýli hans eru horfnar. Sú hugmynd að fjarvera turnanna
skapi rými fyrir birtu í lífi venjulegs fólks skírskotar til ofríkis fjármála-
heimsins sem og stöðu bandaríska heimsveldisins gagnvart „þriðja“ heim-
inum sem segja má að þrífist í skugga þess og skorti þar af leiðandi ákveðin
„þroskaskilyrði“. Þessar eldfimu skírskotanir fóru þó fram hjá ummælend-
um um myndina sem sumir veltu fyrir sér hvaða erindi vangaveltur Penns
um fasteignamarkaðinn í New York ættu inn í verkefni sem þetta.31
Stuttmynd mexíkóska leikstjórans Alejandro González Iñárritu er sú
sem kemst hvað næst því að beina sjónum að hruni turnanna og þar með
sjónarspili hryðjuverkanna. Myndin er, líkt og formgerð verkefnisins, til-
raunakennd og notast við hljóðrás sem leikin er yfir svörtum skjá til þess
að miðla hryllingi árásarinnar (en þann leik lék Michael Moore eftir í
heimildarmynd sinni Fahrenheit 9/11 árið 2004). örvæntingaróp, bænir,
sprengingar, brestir og neyðarköll heyrast á hljóðrásinni, en ekkert sést
nema stöku sinnum koma fallandi líkamar fólksins sem kastaði sér út úr
brennandi turnunum stuttlega í mynd. Hljóðheimur myndarinnar þagnar
hins vegar þegar hljóðlausar fréttamyndir af hruni turnanna birtast í lokin.
Framlag Iñárritu er ólíkt hinum stuttmyndunum að því leyti að þar er ekki
velt vöngum yfir samhengi þeirra heimssögulegu átaka sem setja má árás-
irnar á Tvíburaturnana í samhengi við. Segja má að Iñárritu setji vanga-
veltur um miðlun atburðanna í forgrunn, en þar vinnur hann með skyn-
reynslu áhorfandans. Með því að „birta“ hljóðheim árásanna í bland við
örstuttar leifturmyndir af fallandi líkömum er áhorfandanum látið eftir að
fylla upp í eyðuna og varpa lóðréttri myndinni af brennandi turnunum
sjálfur á tjaldið. Myndin vísar þannig til þess hvernig við geymum flest
skýra sjónræna minningu um sjónarspil hryðjuverkaárásanna í kollinum,
eftir að sú ímynd var greypt inn í vitund okkar með sífelldri endursýningu
í fjölmiðlum. Rými hryðjuverksins, líkt og Baudrillard bendir á, tilheyrir
31 Dennis Lim, „Trauma Center“, The Village Voice 15. júlí 2003.
BJöRN ÞÓR VILHJÁLMSSoN oG HEIðA JÓHANNSDÓTTIR