Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Blaðsíða 40
40
meðan þær voru honum enn í fersku minni.6 Undir það má taka, að því
gefnu að þetta hafi verið ætlun Platons og að tímasetningin standist!
Þau rök fyrir heimildagildi Málsvarnarinnar sem hér hafa verið rakin
gefa sér sem sagt að Málsvörnin hafi verið „skráð“ eða „færð í letur“ stuttu
eftir að hún var flutt. Nálægðin við hinn sögulega atburð gegnir þá því
hlutverki að rökstyðja trúverðugleika ritsins. Auk þess ljær hún ritinu
ákveðna „áru“ svo gripið sé til hugtaka úr fagurfræði. En getum við gefið
okkur þessa tímasetningu? Eru hér kannski á ferðinni hringrök sem tengja
saman tímasetningu og heimildagildi? Þau kynnu þá að vera eitthvað á
þessa leið:
(i) Málsvörnin er trúverðug heimild um Sókrates vegna þess að hún er
skrifuð stuttu eftir ræðu Sókratesar.
(ii) Málsvörnin hlýtur að vera skrifuð stuttu eftir ræðu Sókratesar
vegna þess að hún er svo trúverðug heimild um Sókrates.
Báðir þessir liðir snúast um málsvörnina sem heimild um varnarræðu
Sókratesar. En ef ætlun Platons var ekki sú að varðveita heimild um ræðu
Sókratesar heldur að sýna hvern mann hann hafði að geyma, hvernig lífi
hann hefði lifað og hvernig hann gæti þar með orðið fyrirmynd annarra –
ef Platon horfði sem sé fram á við en ekki aftur á bak – þá skiptir spurn-
ingin um hina raunveruleg varnarræðu Sókratesar kannski ekki öllu máli
og við sjáum Málsvörnina hugsanlega í svolítið öðru samhengi.7
Um þetta álitamál – sambandið á milli varnarræðu Sókratesar sjálfs og
Málsvarnar Sókratesar eftir Platon – hafa reyndar verið reifuð ýmis sjónar-
mið. Þau má draga í grófum dráttum í þrjá dilka og lýsa með eftirfarandi
hætti: 8
6 „Since it purports to reproduce the speeches Socrates made at his trial, at which
Plato says he was present, it would be natural to suppose that he would write it as
soon as possible, while the words were fresh in his memory“ (W.K.C. Guthrie, A
History of Greek Philosophy, IV, Cambridge: Cambridge University Press, 1986 (1.
útg. 1975), bls. 71).
7 E. de Strycker og S.R. Slings, „Plato’s Apology of Socrates“, Plato’s Euthyphro,
Apology, and Crito: Critical Essays, ritstj. Rachana Kamtekar, Lanham, Boulder,
New york, Toronto, oxford: Rowman & Littlefield, 2005, bls. 72–73; kaflinn er
endurprentaður úr bók þeirra, Plato’s Apology of Socrates, Leiden: Brill, 1994, bls.
1–25.
8 Sbr. Donald Morrison, „on the Alleged Historical Reliability of Plato’s Apology“,
Plato’s Euthyphro, Apology, and Crito: Critical Essays, bls. 97–126, hér bls. 102.
GunnaR HaRðaRson